138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi.

517. mál
[13:37]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta er mál sem varðar ákveðna tæknilega úrlausn á uppgjörinu milli gamla og nýja bankans. Ég tel að með þessu máli sendi Alþingi röng skilaboð út í samfélagið. Við sem störfum á Alþingi eigum ekki að auðvelda atferli sem gengur gegn vilja eða anda þeirra laga sem við höfum sett. Við erum ekki að tala um nein smálög heldur neyðarlögin sjálf og grundvallarhugsun þar á bak við, forgangsröðunina sem við breyttum með neyðarlögunum.

Þetta frumvarp hefur valdið óróa hjá innstæðueigendum. Því er mikilvægt að við förum í ákveðna vinnu varðandi innstæðutryggingarnar og aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka áður en við sendum út þau skilaboð að við séum tilbúin til þess að afnema forgangsröðun innstæðna. Með samþykkt þessa máls er verið að senda út þau skilaboð að ætlunin sé að gera það.

Ég get því engan veginn samþykkt þetta mál og (Forseti hringir.) mun segja nei.