138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

heimild fjármálafyrirtækis til að veita veðréttindi.

517. mál
[13:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Málið sem við ræðum hérna breytir forsendum neyðarlaganna um forgang innstæðueigenda í þrotabú. Það er í raun atlaga að trausti þeirra á bankastofnunum. Ég tek undir gagnrýni á þá leynd sem ríkisstjórnin viðhafði og hvernig það var falið fyrir Alþingi og allri þjóðinni hvernig samningarnir voru gerðir. Ég bið hæstv. ríkisstjórn að taka á honum stóra sínum, sérstaklega þegar við erum að taka á vandamálum skuldara í þjóðfélaginu, og gæta líka að hag sparifjáreigenda vegna þess að það verður ekkert lánað út í þessu landi nema það sé fyrst sparað. Þar sem við erum að miklu leyti búin að missa lánstraust úti um allan heim höfum við ekki annað en innlenda sparifjáreigendur og lífeyrissjóðina, sem eru þvingaður sparnaður, til að treysta á. Ég skora því á hæstv. ríkisstjórn (Forseti hringir.) að standa vörð um hagsmuni sparifjáreigenda. Ég sit hjá.