138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[14:03]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F):

Frú forseti. Við erum komin í 3. umr. um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki og eins og ég hef komið að áður er þetta ekki í fyrsta skipti sem við breytum þessum lögum frá því að bankahrunið varð, mér skilst að þetta sé í sjöunda eða áttunda skipti sem við stöndum í þessu. Það liggur líka fyrir að eftir þessa umræðu og vinnuna í nefndinni erum við rétt að byrja vinnuna.

Ég er hins vegar mjög sátt við þennan áfanga. Ég tel að þær breytingar sem verið er að leggja hér til og voru samþykktar eftir 2. umr. og þær breytingartillögur sem verið er að leggja til núna við 3. umr. séu til bóta fyrir lögin og fyrir starfsemi fjármálafyrirtækja á Íslandi. Það sem einna helst var farið í gegnum á milli 2. og 3. umr. voru náttúrlega þær athugasemdir sem komu fram við mjög langa og viðamikla og að mörgu leyti áhugaverða umræðu, 2. umr., þar sem þingmenn ræddu fram og til baka um sína sýn á það hvers konar fjármálamarkaði menn vildu hafa á Íslandi og komu ýmsar ábendingar fram, t.d. hvað varðar aðskilnað viðskiptabanka og fjárfestingarbanka. Ég hef sjálf í þessari vinnu lagt mikla áherslu á hlutverk endurskoðenda. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar komu fram mjög miklar athugasemdir um starf endurskoðenda og þar sem frumvarpið sjálft var unnið að miklu leyti áður en skýrslan kom út hafði kannski ekki verið tekið neitt sérstaklega mikið á þætti endurskoðenda. Ég held að ég geti fullyrt að öll nefndin er sammála um að fara þurfi í heildarendurskoðun á lögum um endurskoðendur, þrátt fyrir að verið sé að setja inn ýmsar breytingar í þessi lög.

Við samþykkt þessara breytingartillagna á milli 2. og 3. umr. komu fram athugasemdir frá Félagi endurskoðenda og endurskoðendaráði um þær breytingar, sérstaklega hvað það varðar að þeir töldu að vegið væri að vissu leyti að atvinnufrelsi endurskoðenda með því að segja að endurskoðendur ættu aðeins að sinna endurskoðun og ekki öðrum verkefnum fyrir fjármálafyrirtæki ef þeir væru endurskoðendur fjármálafyrirtækisins. Ég vil fá að tjá mig aðeins um þetta. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að vera mjög skýrt að endurskoðandi sinni ekki öðrum störfum en einungis endurskoðun viðkomandi fjármálafyrirtækis. Undir það falla að sjálfsögðu verkefni eins og að fara yfir árshlutauppgjör og gefa frá sér ýmsar yfirlýsingar sem byggjast á endurskoðun endurskoðandans en þættir eins og ýmis ráðgjafarverkefni eða skattaráðgjöf eru verkefni sem endurskoðandi á ekki að sinna. Ég tel raunar í ljósi reynslunnar mjög mikilvægt að skilja þar á milli. Síðan er líka atriði sem við lögðum mjög mikla áherslu á að kæmi inn frá viðskiptanefnd til að tryggja enn betur óhæði endurskoðenda þannig að endurskoðendur væru ráðnir fimm ár í senn og það þyrfti raunar að vera mjög erfitt að segja endurskoðanda upp á því fimm ára tímabili og slíkt væri þá ekki hægt að gera nema álit endurskoðendaráðs lægi fyrir um að víkja ætti endurskoðanda frá störfum.

Endurskoðendaráð taldi að þetta gæti hugsanlega samrýmst illa því opinbera eftirlitshlutverki sem það hefur og segir, með leyfi forseta: „Einkum gæti slík aðkoma ráðsins á fyrri stigum máls verið til þess fallin að hafa áhrif á aðkomu þess á síðari stigum málsins, sbr. 20. gr. laga um endurskoðendur.“

Ég tek undir það sem kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans að ég tel ekki vera ósamræmi á milli breytingartillögunnar sem samþykkt var við 2. umr. og því opinbera eftirlitshlutverki sem endurskoðendaráði er falið í lögum um endurskoðendur. Það ætti einmitt að geta mjög vel sinnt þessu hlutverki þar sem það er raunar verið að biðja endurskoðendaráð um að tjá sig um hvort uppsögn brjóti að einhverju leyti gegn lögum, eða sé á einhvern máta óeðlileg í ljósi þess hlutverks sem endurskoðandi á að hafa, sem er mjög mikilvægt. Endurskoðandi er náttúrlega að þjóna samfélaginu og þó að það sé fjármálafyrirtæki sem borgar laun hans eru þær upplýsingar og sú endurskoðun sem endurskoðandi framkvæmir á ársreikningum og reikningum félags það mikilvægar fyrir samfélagið að við þurfum að sjá til þess að enginn vafi leiki á um einmitt óhæði endurskoðandans.

Ég er fyllilega sammála því að við höldum okkur við þessar breytingar og ég vona að sú ítrekun sem kemur fram í nefndarálitinu skýri það líka betur ef einhver er enn þá óviss um hvað Alþingi meinar nákvæmlega með þessum breytingum.

Annað sem við ræddum töluvert og höfum auðvitað rætt áður en ræddum enn frekar eftir 2. umr. voru þær ábendingar sem komu fram um að gera þyrfti tillögu um aðskilnað fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Þetta er mjög stór spurning og það sem menn hafa bent á er að við erum náttúrlega aðili að EES-samningnum þannig að við tökum fyrst og fremst okkar löggjöf frá Evrópu hvað varðar fjármálamarkaðinn, en þar hefur ekki tíðkast að skilja á milli þessara tveggja tegunda af starfsemi þó að það hafi áður verið í lögum í Bandaríkjunum. Hins vegar er verið að ræða það, þó að það hafi verið afnumið fyrir u.þ.b. 20 árum í Bandaríkjunum, að taka aftur upp þennan aðskilnað og tillaga þess efnis er í meðförum hjá bandaríska þinginu. Ég tel mjög mikilvægt að við fylgjumst vel með þeirri umræðu og hver niðurstaðan verður hjá Bandaríkjamönnum um þetta.

Það hefur líka verið rætt í tengslum við fyrirhugaða stofnun á nýrri deild í innstæðutryggingarsjóðnum og endurreisn á innstæðutryggingarkerfinu og þeim forúrskurði eða athugasemdabréfi sem borist hefur frá ESA um innstæðurnar og hið margumtalaða Icesave-mál, hvort einhver grundvöllur sé fyrir því, eins og formaður viðskiptanefndar, hv. þm. Lilja Mósesdóttir, velti hér upp, hvort það séu hreinlega forsendur fyrir því að vera með einkabanka. Ef það er svo að ríkið, eins og ESA virðist túlka í bréfi sínu, ábyrgist innstæður upp að þessu lágmarki, ef nýja frumvarpið verður að lögum, upp að 100 þúsund evrum eða um 16 millj. ísl. kr., má áætla að þar með séum við að tryggja um þriðjung af öllum innstæðum í landinu, eða um 600 milljarða sem ríkið gengst þá í ábyrgð fyrir. Ef við ætlum að taka trúanlega túlkun ESA á þessu og jafnvel Evrópusambandsins er alveg spurning um hvort við stöndum ekki frammi fyrir því sem var umfjöllun um í fyrradag í Morgunblaðinu þar sem var verið að fjalla um innstæðutryggingar. Fyrirsögnin á þeirri grein er „Hagnaðurinn til eigenda en tapið lendir á skattgreiðendum“. Og ef svo er að tapið lendi ætíð á skattgreiðendum en við erum hins vegar öll sammála um mikilvægi þess að vera með banka, að bankar séu nauðsynlegir til að fjármagna aðra atvinnustarfsemi, fjármagna húsakaup, bílakaup og oft jafnvel nauðsynleg útgjöld hjá heimilum landsins (PHB: En sparifjáreigendur?) — við þurfum að sjálfsögðu sparifjáreigendur til að fjármagna það, því að ég er náttúrlega að ræða um innstæðurnar ef hv. þm. Pétur H. Blöndal hefði áhuga á að hlusta á það sem ég var að segja — þá tel ég náttúrlega algerlega óásættanlegt að við stöndum frammi fyrir því að tapið af því að vera með bankakerfi, þ.e. einkarekið bankakerfi, lendi á skattgreiðendum en hagnaðurinn eigi ávallt að lenda hjá eigendunum eða einstaklingunum. Þurfum við þá ekki að fara að endurskilgreina bankakerfið sem svipaðan hluta af þeirri samfélagslegu þjónustu sem við viljum veita, eins og t.d. veitukerfið, rafmagnslínurnar, heilbrigðiskerfið, vegakerfið og menntakerfið?

Það hefur verið pólitísk stefna á Íslandi að þau kerfi sem ég nefndi, grunnkerfi samfélagsins, séu í samfélagslegri eign. Ef þessi túlkun verður niðurstaðan hjá Evrópusambandinu er alveg spurning um hvort í raun og veru er hægt að vera með einkabanka á Íslandi, a.m.k. einkabanka sem taka við innstæðum sem eru tryggðar. Hins vegar væri hægt, ef við tökum þessa hugmynd aðeins lengra, að vera með banka á vegum ríkisins sem hefði slíka innstæðutryggingu og síðan væru fjárfestingarfélög sem fólk gerði sér grein fyrir að væru ekki með slíkar tryggingar hjá ríkinu og það tæki meiri áhættu með sitt fé en á móti hefði það náttúrlega meiri möguleika á því að hagnast.

Eins og heyrist hér á ræðu minni erum við náttúrlega með það undir, þó að við séum fyrst og fremst að fjalla um starfsskilyrði fjármálafyrirtækja, rekstur fjármálafyrirtækja samkvæmt þessum lögum, hvernig við viljum sjá nýja fjármálakerfið á Íslandi. Ég var búin að leggja fram breytingartillögur við þetta frumvarp þar sem ég lagði til að sett yrði á stofn nefnd sem færi í þessa stefnumörkun, sem mér hefur fundist skorta mjög á, þar sem við veltum þeim spurningum fyrir okkur hvers konar fjármálamarkað við viljum hafa á Íslandi, og ekki bara því heldur líka hvers konar fjármálamarkað við ráðum í raun og veru við að hafa miðað við að hér búa aðeins um 320 þúsund manns.

Ég er þess vegna mjög ánægð að sjá að nú er komið inn í breytingartillögur frá meiri hluta viðskiptanefndar að, með leyfi forseta, „efnahags- og viðskiptaráðherra skipi nefnd sem hafi það hlutverk að móta stefnu um framtíðaruppbyggingu fjármálakerfisins með hliðsjón af ábendingum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, væntanlegum tillögum þingmannanefndar Alþingis um nauðsynlegar lagabreytingar og þeim breytingum sem gerðar hafa verið á lagaumhverfi fjármálageirans eftir fall bankanna“. Nefndin skal m.a. skoða stöðu og starfsumhverfi sparisjóða, eignarhald fjármálafyrirtækja á vátryggingarfélögum og öfugt, reglur um hámarkseignarhlut í fjármálafyrirtæki og hvernig best verði hægt að tryggja dreift eignarhald og hvort skilja beri að starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Ég tel mjög mikilvægt að þessi nefnd verði sett á stofn sem allra, allra fyrst og að henni komi ekki bara sérfræðingar heldur líka stjórnmálamenn, því að með niðurstöðu þessarar nefndar erum við náttúrlega að leggja drög að pólitískri stefnumörkun um það hvers konar fjármálamarkaði við viljum hafa á Íslandi og hvers konar fjármálamarkaði við treystum okkur í raun og veru til að hafa á Íslandi.

Ég hafði hins vegar líka lagt fram ákveðna breytingartillögu um skipan stjórnar sparisjóða. Þar vil ég taka undir orð hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar þar sem hann benti á í sinni ræðu að enn er mjög margt sem á eftir að útskýra eða marka stefnu um varðandi hvers konar sparisjóðir við viljum að starfi hér. Þó að farið hafi verið í ákveðnar breytingar síðastliðið sumar á löggjöf um sparisjóði, sem er hluti af lögum um fjármálafyrirtæki, tel ég að enn þá vanti töluvert á til að tryggja hugmyndafræðina sem er að baki sparisjóðunum. Ég hafði lagt fram breytingartillögu um að tryggja þessi samfélagslegu tengsl sem eru svo mikilvæg í starfsemi sparisjóðanna við starfssvæði sitt og samfélag, um að í stjórn sparisjóðs skuli sitja að lágmarki fimm menn, stofnfjáreigendur kjósi tvo stjórnarmenn, hlutaðeigandi sveitarstjórnir eða héraðsnefndir tilnefni tvo stjórnarmenn og innstæðueigendur einn stjórnarmann samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum sjóðsins. Ef starfssvæði sparisjóðs nær yfir fleiri en eitt sveitarfélag skuli viðkomandi sveitarstjórnir eða héraðsnefndir koma sér saman um tilnefningu stjórnarmanna þannig að fulltrúi hvers sveitarfélags sitji ekki lengur en tvö ár samfleytt í stjórn sjóðsins. Stjórnin kjósi sér formann úr sínum hópi. Heimilt sé að kjósa varamenn jafnmarga aðalmönnum eftir sömu reglum og gilda um kosningu aðalmanna. Kosning stjórnar skuli vera hlutbundin ef óskað er. Í stjórnir sparisjóða sem eru með fleiri en 15 starfsmenn skuli starfsmenn kjósa einn fulltrúa og fulltrúa starfsmanna sé ekki heimilt að vera formaður eða varaformaður sjóðsins.

Þessi hugmynd að skipan stjórna sparisjóða kviknaði við lestur laga um sparisjóði í Noregi og þar hefur gengið ágætlega að reka sparisjóði. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við reynum með einhverju móti að opna sparisjóðina. En þar sem ég skrifaði undir meirihlutaálitið með fyrirvara hyggst ég draga til baka þær tillögur mínar sem voru dregnar til baka við 2. umr. og vonast til þess að þegar umrædd nefnd tekur til starfa taki hún tillit til þeirra tillagna sem ég hef lagt fram tvisvar á yfirstandandi þingi og skoði vel og vandlega löggjöf um sparisjóði í nágrannalöndum okkar.

Ég vil að lokum þakka öllum, (Forseti hringir.) bæði meiri hluta og minni hluta í nefndinni, fyrir vinnuna við frumvarpið, ég tel að hún hafi verið til fyrirmyndar. Við höfum oft tekist á en við höfum yfirleitt (Forseti hringir.) náð ákveðinni niðurstöðu.