138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[14:38]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt, ég held að við þurfum að leita allra leiða til að stoppa í það fjárlagagat sem við stöndum frammi fyrir og jafnandstæður og ég er yfirleitt frekari skattahækkunum og hef látið það í ljós tel ég hins vegar að við ættum kannski að leita nýrra leiða því að ekki geta heimili og venjuleg fyrirtæki í þessu landi tekið á sig frekari skattahækkanir. Það er mín skoðun og ég hef barist fyrir henni. Ég tel hins vegar að við eigum að skoða t.d. auðlindaskatt, hann ber að skoða, hann getur verið ágætismillileið, t.d. í harðri deilu okkar um útfærslu á sjávarútvegsmálum.

Hvað varðar endurskoðendur tel ég ekki að þeir þurfi að hafa jafnmiklar áhyggjur af þessu ákvæði og þeir hafa látið í veðri vaka, ég vona a.m.k. að ég hafi rétt fyrir mér þar, vegna þess að í 19. gr. laga um endurskoðendur segir, með leyfi forseta:

„Í endurskoðunarverkefnum skal endurskoðandi og endurskoðunarfyrirtæki vera óháð viðskiptavini sínum, bæði í reynd og ásýnd. Endurskoðandi skal eigi framkvæma endurskoðun ef einhver þau tengsl eru á milli endurskoðandans og viðskiptavinar hans sem eru til þess fallin að vekja efa um óhæði hans hjá vel upplýstum þriðja aðila, svo sem atvinnutengsl, bein eða óbein fjárhagsleg tengsl eða viðskiptatengsl önnur en leiðir af endurskoðuninni.“

Ég tel svo að breytingartillögur viðskiptanefndar við þetta frumvarp séu einungis nánari útfærsla á þeim atriðum sem ég las upp.