138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[14:40]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi endurskoðendurna á bara eftir að ræða það. Svo það sé upplýst fyrir þá sem ekki þekkja til þá komu endurskoðendur með athugasemdir á milli umræðna vegna þess að þeir hafa mjög miklar áhyggjur af þessu. Efnahags- og viðskiptaráðuneytið segir: Ekki hafa áhyggjur af þessu. En við höfum ekkert rætt þetta og fyrir um ári síðan þurftum við í hv. viðskiptanefnd að breyta lögum, nokkrum dögum eftir að þau voru samþykkt vegna þess að menn gerðu mistök og hlustuðu ekki á athugasemdir og ég vona að það verði ekki aftur þannig.

Ég fagna því að hv. þingmaður telji að heimili og fyrirtæki þoli ekki meiri skattahækkanir. Þá getur hv. þingmaður ekki sagt að hann vilji leggja á auðlindaskatt, því að auðlindaskatturinn lendir annaðhvort á fyrirtækjunum eða heimilunum. Skattar lenda nefnilega ekki á geimverum eða neitt slíkt, þeir lenda bara á fólkinu og fyrirtækjunum í landinu og það er eitthvað sem menn þurfa að hafa í huga. Ég lít svo á að ef hv. þingmaður segir að hann sé ekki fylgjandi meiri skattlagningu á heimili og fyrirtæki hafi hann þar af leiðandi blásið af hugmyndir um auðlindaskatt nema lækka einhverja skatta verulega á móti. (MSch: Sagði ég ekki almenn fyrirtæki?)

Ég lít á þetta verkefni sem tvenns konar. Annars vegar hvernig gera skal upp fortíðarvandann, t.d. Icesave-málið, sem við höfum rætt mjög mikið og ég tel ekki að við eigum að bera þær byrðar sem útlendingar og Evrópusambandið og Bretar og Hollendingar telja að við eigum að bera og ég ætla ekki að fara í þá umræðu.

Síðan er það hvernig við ætlum að byggja upp fjármálakerfið, lágmarka áhættu fyrir skattgreiðendur og sjá til þess að það eftirlit og aðrir þættir — sérstaklega með innlánstryggingar, sem ég tel að við séum að ganga allt of langt í og ég held að sú hugsun gangi ekki upp, hvernig ætla menn að fjármagna það? Þetta þarf að skoða (Forseti hringir.) í samhengi og mér heyrist að hv. þingmaður sé algjörlega (Forseti hringir.) sammála mér þannig að ég hlakka til að vinna með honum að þessum málum í nánustu framtíð.