138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[15:00]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er út af fyrir sig rétt að brennt barn ætti að forðast eldinn. Það sem ég hef gagnrýnt helst í þessu máli og í tengslum við þetta mál og reyndar önnur er að sú ríkisstjórn sem ber ábyrgð á þessu máli, og reyndar öðrum málum sem varða fjármálamarkaðinn, virðist ekki ætla að draga neinn lærdóm, a.m.k. ekki strax, af þeim ábendingum sem fram hafa komið, m.a. í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Ég sagði áðan að ég hefði talið skynsamlegra að taka þetta frumvarp til baka, máta það saman við þær athugasemdir sem fram koma í rannsóknarskýrslu Alþingis og reyna að ná fram einhverri heildstæðri tillögugerð sem varðar allan fjármálamarkaðinn. Hvorki þetta frumvarp né önnur bera þess merki að svo sé gert.

Auðvitað er margt ágætt í þessu frumvarpi sem slíku, ég hef sagt það áður í ræðum mínum hér, en þær breytingar og þær tilfæringar sem hæstv. ríkisstjórn og ríkisstjórnarflokkarnir leggja hér til nægja ekki og eru vanhugsaðar að mörgu leyti að mínu mati.

Úr því að hv. þingmaður nefndi auknar heimildir Fjármálaeftirlitsins ætla ég ekki að neita því að það kunni að vera nauðsynlegt að færa Fjármálaeftirlitinu og e.t.v. öðrum eftirlitsstofnunum samfélagsins ríkari heimildir til að sinna störfum sínum. En þá þarf að sama skapi að taka lög um Fjármálaeftirlitið til (Forseti hringir.) gagngerrar endurskoðunar, það þarf að skoða hvort það hafi mannskap og fjármuni til að sinna þessum verkefnum. (Forseti hringir.) Allt þetta hefur verið látið reka á reiðanum i tengslum við þetta mál, frú forseti.