138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

staða hestatengdrar starfsemi í kjölfar hrossapestarinnar.

[15:03]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Mjög alvarleg sótt steðjar nú að íslenska hrossastofninum. Hún hefur einkenni veirusýkingar en er smitsjúkdómur sem má segja að hafi heltekið hesta um allt land. Því hefur jafnvel verið haldið fram að þetta séu mestu vandræði í hrossarækt á Íslandi frá upphafi. Þetta er ekki alvarlegur sjúkdómur í þeim skilningi að hann hafi dregið hesta til dauða, en hann er alvarlegur fyrir margra annarra hluta sakir. Einkennin eru væg í fyrstu. Það er talið að pestin sé 12 vikna ferli, fyrstu fjórar vikurnar eru einkennalausar eða -litlar en það versnar þegar á líður.

Afleiðingarnar af þessari hestapest eru mjög alvarlegar og má reyndar segja að þær séu gríðarlegar um allt land. Því var vel lýst af forsvarsmönnum íslenskra hestamanna sem heimsóttu okkur í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að minni ósk fyrir fáeinum dögum. Eins og einn lýsti því gengur allt eins fyrir sig og áður, útgjöldin eru hin sömu en fólk hefur bara engar tekjur. Það er kjarni málsins og lýsir alvöru þess. Á undanförnum árum hefur okkur tekist mjög vel til við uppbyggingu hestamennskunnar í landinu. Hestarnir hafa tekið miklum framförum, fjöldi fólks stundar núna nám á þessum sviðum ár hvert með það fyrir augum að hasla sér völl í hestatengdri starfsemi og það leikur enginn vafi á því að núna erum við með glæsilegasta hestastofn sem við höfum nokkurn tímann getað státað af hér á landi.

Staðan er núna sú að menn geta illa hreyft hestana vegna þessarar pestar. Atvinnustarfsemin sem er gríðarlega umfangsmikil og skiptir miklu máli úti um allt land, bæði í dreifbýli og þéttbýli, er mjög löskuð af þessum sökum. Gáum að því að heildarfjöldi hrossa hér á landi er talinn vera um 80.000. Heildarverðgildi hrossanna er að mati þeirrar nefndar sem ég skipaði á sínum tíma um möguleika í hrossarækt talið vera um 8 milljarðar kr. og heildartekjur sem hrossastofninn gefur eru taldar vera um 3 milljarðar kr. Við sjáum með öðrum orðum að hér er gríðarlega mikið í húfi. Utan Íslands eru um 150.000 íslenskir hestar og félagsmenn í hestamannafélögum tæplega 50.000.

Afleiðingarnar birtast okkur þessa dagana í því að búið er að taka ákvörðun um að Landsmót hestamanna sem átti að halda um næstu mánaðamót á Vindheimamelum í Skagafirði verður fellt niður. Þangað hefði mátt ætla að hefðu komið 10.000–15.000 manns, þar af 3.000–5.000 útlendingar. Fyrir þessara hluta sakir ríkir núna mjög mikil fjárhagsleg óvissa um Landsmót hestamanna, það fyrirtæki sem hefur staðið fyrir landsmótinu undanfarin ár. Sú spurning sem þarf að svara alveg á næstunni er hvort menn hafi fjárhagslega burði til áframhalds og til að undirbúa mót að ári.

Útflutningurinn liggur niðri. Þetta er alvöruútflutningsgrein sem hefur gefið okkur milljarð í gjaldeyristekjur og ríflega það að mati margra. Hestatengd ferðamennska hefur haslað sér völl í vaxandi mæli. Menn áætla að 80.000–100.000 erlendir ferðamenn fari á hestbak. Þetta hefur líka áhrif á fjölþætt námskeiðahald, m.a. fyrir ungt fólk sem verið er kynna fyrstu skrefin í hestamennskunni. Járningar eru atvinnustarfsemi sem skiptir máli. Atvinna knapa er líka í uppnámi fyrir þessar sakir sem og lengri og styttri hestaferðir og áfram mætti telja. Auðvitað hefur þetta gríðarleg áhrif á þá sem hafa atvinnu sína að öðru leyti af hestamennsku af margs konar toga, ekki síst í sveitum landsins. Nú bíða menn þess í ofvæni hvort fædd og ófædd folöld kunni að bíða skaða af pestinni. Síðast en ekki síst spyrja menn um smitleiðir úr því að þetta er smitsjúkdómur.

Ég vil þess vegna árétta að við erum að tala um alvarlega hluti sem við þurfum að hyggja að. Í fyrsta lagi þarf að komast til botns í þessum sjúkdómi. Frekari rannsóknir þurfa að fara fram. Það hefur verið hvatt til þess að leggja sérstaka fjármuni til Matvælastofnunar og Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum til að rannsaka megi til hlítar þann smitandi hósta sem herjar núna á íslenska hrossastofninn.

Ég spyr hæstv. ráðherra hvort ætlunin sé að leggja fjármuni til þessa verkefnis sem talið er að kosti um 10 millj. kr. Í öðru lagi spyr ég hvort ætlunin sé að styðja með einhverjum hætti við Landsmót hestamanna ehf. sem hefur orðið fyrir þessu gríðarlega og óafturkræfa fjárhagslega tjóni til að tryggja að halda megi landsmót hestamanna að ári. Í þriðja lagi spyr ég hæstv. ráðherra hvort ætlunin sé að stuðla að kynningarstarfsemi til þess að draga úr líkum á því að slíkur sjúkdómur nái að stinga sér niður á nýjan leik. Menn þurfa að vera miklu varkárari í ýmsum efnum sem menn hafa kannski ekki áttað sig á. Og kynningarstarfsemi sem þarf þess vegna að eiga sér stað mun kosta peninga.

Spurningin er þessi: Verður með einhverjum hætti reynt að styðja við þetta? Hér eru almennir hagsmunir í húfi

Loks hljótum við að spyrja hvort einhverjum af þeim miklu peningum sem ætlaðir eru núna til landkynningar, 300 millj. kr. af fé ríkisins, verði varið sérstaklega til landkynningar í tengslum við íslenska hestinn og landsmótið sem ætlunin er að halda að ári í Skagafirði. (Forseti hringir.)

Ég vil árétta að það er búið að leggja mikla peninga í slíka kynningu af hálfu hestamanna. (Forseti hringir.) Þeir peningar eru nú að glatast á vissan hátt vegna þess að landsmótinu var frestað og spurningin er hvort hægt sé að nýta að hluta til þá fjármuni sem ríkið hefur þegar lagt til landkynningar (Forseti hringir.) sérstaklega í þessu skyni.