138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

staða hestatengdrar starfsemi í kjölfar hrossapestarinnar.

[15:09]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Einari Kristni Guðfinnssyni fyrir að taka upp þetta alvarlega mál sem er smitandi hósti í hrossum og hefur haft gríðarleg áhrif á heila stóra atvinnugrein sem er hestamennskan og það sem henni tengist. Eins og kom fram hjá hv. þingmanni hefur undanfarna mánuði ríkt mjög alvarlegt ástand í hrossarækt og hestamennsku hér á landi þar sem þessi nýi smitsjúkdómur, smitandi hósti, hefur komið upp í hrossastofninum og veikin hefur lamað alla hestatengda starfsemi í á þriðja mánuð og valdið gríðarlegu tjóni í hrossaræktinni, hestamennskunni og tengdum greinum og raunar í samfélaginu öllu sem tengist svo margþætt þessari atvinnugrein.

Svo virðist sem nánast öll hross hafi smitast af þessum sjúkdómi. Rannsóknir á orsökum og uppruna sjúkdómsins hafa enn ekki leitt fram viðhlítandi svör þó að mikilvægar upplýsingar hafi komið fram og sjúkdómsmyndin sé að skýrast. Nauðsynlegt er að halda þeim rannsóknum áfram samkvæmt sérstakri rannsóknaráætlun. Einnig er mikilvægt að auka skipulegar sóttvarnir í því skyni að lágmarka tjón af völdum sjúkdómsins verði hann landlægur hér. Þá er nauðsynlegt að yfirfara alla þætti í smitsjúkdómavörnum landsins til að fyrirbyggja eins og nokkur kostur er að enn alvarlegri eða kostnaðarsamari smitsjúkdómar berist til landsins.

Eins og kom fram hjá hv. þingmanni hafa afleiðingar sjúkdómsins þegar verið grafalvarlegar og aflýst hefur verið Landsmóti hestamanna sem halda átti á Vindheimamelum um næstu mánaðamót. Nánast öll hestamennska og hestatengd starfsemi liggur niðri. Landsmótið verður haldið að ári en tekjutjón sem af þessu hlýst er eigi að síður gríðarlegt. Engin dul er dregin á að ástandið í hrossabúskap og hestamennsku landsmanna um þessar mundir er grafalvarlegt.

Hv. þingmaður spurði mig nokkurra spurninga í upphafi umræðunnar. Sú fyrsta var hvernig ég hygðist bregðast við þeim vanda sem upp er kominn vegna þessarar veiki. Því er til að svara að ráðuneytið og Matvælastofnun vinna með ráðum og dáð í samvinnu við búgreinina og hestamannahreyfinguna að hvers konar aðgerðum til að bæta heilbrigðisástand hrossanna og hamla gegn áfallinu fyrir greinina.

Þingmaðurinn spurði hvort lagðir yrðu sérstakir fjármunir til Matvælastofnunar og Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum til að rannsaka megi til hlítar orsakir sjúkdómsins. Að beiðni minni unnu þessir aðilar ítarlega greinargerð og rannsóknaráætlun um hvað þyrfti að gera í þessum efnum og gerðu tillögur um það. Þær voru lagðar fyrir ríkisstjórn á þriðjudaginn sem og áætlunin sem gerir ráð fyrir, eins og hv. þingmaður minntist á, einhvers staðar á bilinu 15–20 millj. kr. fyrir þessar tvær stofnanir til að takast á við þá bráðaaðgerð sem þar er tilgreind.

Markmiðið með þessari sérstöku rannsóknaráætlun sem ráðast þarf í er að greina orsök sjúkdómsins og uppruna hans, kortleggja smitdreifingu og varpa ljósi á eðli sjúkdómsins og þá þætti sem hafa áhrif á alvarleika hans. Markmiðið með sérstakri sóttvarnaáætlun er að efla varnir gegn því að smitsjúkdómar berist til landsins, gefa út sértækar leiðbeiningar um smitvarnir vegna smitandi hósta í hrossum og framkvæma úttekt á smitvörnum almennt í hrossahaldi þar sem ný tækni við þjálfun hrossa hefur rutt sér til rúms. Endurskoða þarf viðbragðsáætlanir og skerpa á tilkynningarskyldu dýralækna og hrossaeigenda og hraða vinnu við gerð þeirra.

Hv. þingmaður spurði mig hvort við hygðumst stuðla að kynningarstarfsemi. Ég veit að þessir aðilar hafa þegar átt fund í iðnaðarráðuneytinu sem fer með þetta sérstaka kynningarátak fyrir Ísland í tengslum við ýmsar hamfarir sem dunið hafa yfir.

Þá eru einnig spurningar um stöðu og tap hjá þeim sem stóðu að því að halda Landsmót hestamanna. Ég veit að það hefur verið rætt um að Byggðastofnun, Framleiðnisjóður eða slíkir aðilar (Forseti hringir.) gætu komið þar að, en þessi mál eru öll á frumstigi, frú forseti. Verið er að safna (Forseti hringir.) gögnum um það en okkur er alveg fyllilega ljóst að hér er alvarlegt mál á ferðinni.