138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

staða hestatengdrar starfsemi í kjölfar hrossapestarinnar.

[15:14]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að vekja máls á þessu alvarlega máli og eins þakka ég fyrir svör ráðherra sem voru ágætlega skýr og svöruðu flestu af því sem mér heyrðist hv. þm. Einar K. spyrja um. Mig langar aðeins að fara yfir nokkra hluti sem tengjast þessu og rifja upp að fyrir 12 árum kom hér upp hitasótt í hrossum, meltingarfærasjúkdómur sem olli verulegu tjóni, talsverðum dauða, en kannski minna fjárhagslegu tjóni en við horfum upp á núna. Það reyndist mjög erfitt að staðfesta um hvaða vírus var að ræða og í kjölfarið var sett á sölubann og útflutningsbann eða -höft sem urðu greininni mjög erfið. Ég árétta að ég held að stjórnvöld og yfirvöld þessara mála hafi tekið réttar ákvarðanir í aðdraganda þessa máls, en það er augljóst að það vantar bæði meira fjármagn og meiri vinnu til að rannsaka hvað hér er í gangi. Ekki einasta er um vírussýkingu að ræða, heldur hefur komið í kjölfarið alvarleg bakteríusýking sem veldur fyrst og fremst hestunum veikindum og tjóni.

Við þurfum hins vegar að velta fyrir okkur hvað við ætlum að gera hér í framtíðinni. Ég er ekki endilega talsmaður frekari boða og banna eins og við erum komin með nóg af, en við þurfum að rifja upp hluti eins og tveggja daga reglu um það þegar menn fara milli landa, milli húsdýra. Við þurfum að velta fyrir okkur hvort við eigum að taka upp harðari reglur eins og menn gera á Nýja-Sjálandi og í Ástralíu hjá þeim aðilum sem ferðast á milli, með dýrahald í huga.

Ég er ekki að leggja til að við tökum upp bólusetningar en á meðan við erum að skerpa viðbragðsáætlanirnar ættum við að láta gera úttekt á því hvað það mundi kosta. Við þurfum að horfast í augu við það að í (Forseti hringir.) framtíðinni eigum við hugsanlega yfir höfðum okkur alvarlegri sjúkdóma en þessa tvo vírusa sem hér hafa komið ef við breytum ekki einhverju í atferli okkar. Ég held að áður en við gætum tekið slíkar ákvarðanir þyrfti að (Forseti hringir.) gera úttekt á slíkum kostnaði.