138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

staða hestatengdrar starfsemi í kjölfar hrossapestarinnar.

[15:19]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hann er aðdáunarverður sá mikli árangur sem náðst hefur í hrossarækt hérlendis á undanförnum árum og áratugum og af þessu hefur skapast gríðarlega mikil atvinna og verðmæti. Þessi hrossapest er því alvarlegt áfall, ekki aðeins fyrir greinina heldur fyrir atvinnulífið í landinu. Þetta er eins og ef hver önnur nokkuð öflug atvinnugrein mundi lamast tímabundið. Í sjálfu sér er enn þá ófyrirséð hverjar afleiðingarnar verða af þeirri alvarlegu pest sem hér stingur niður fæti. Full ástæða er til þess að ekkert verði til sparað til að komast til botns í því hvernig þetta smit hefur borist til landsins. Við þurfum að leggja mikla áherslu á það og kosta til þess því sem til þarf að efla þær rannsóknir og hraða þeim sem mest. Það er grundvallaratriði til að geta brugðist við vágesti sem þessum í framtíðinni og til að reyna að fyrirbyggja það að svona nokkuð endurtaki sig.

Líta verður á þær alvarlegu afleiðingar sem þetta hefur fyrir greinina og skoða hvaða möguleikar eru til að hjálpa greininni til að standast þetta áfall. Sérstaklega verður að horfa þar til landsmótsins og þess mikilvæga starfs sem þar er í húfi og reyna að greiða því leið að það megi halda um leið og él birtir.

Virðulegi forseti. Þetta minnir okkur einnig á hversu viðkvæmir íslenskir dýrastofnar eru vegna þeirrar einangrunar sem landið hefur búið þeim í gegnum aldirnar og þetta brýnir okkur enn í því að við þurfum að efla sjúkdómavarnir í landinu. Við þurfum að ganga raunhæft til verka á þeim vettvangi. En það er alveg ljóst að þetta á að vera okkur þörf áminning um það, og ekki bara gagnvart hrossarækt, heldur búfjárrækt almennt, hversu viðkvæmir (Forseti hringir.) dýrastofnar okkar eru gagnvart sjúkdómum sem hugsanlega berast erlendis frá.