138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

staða hestatengdrar starfsemi í kjölfar hrossapestarinnar.

[15:22]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fékk hagsmunaaðila nýlega á sinn fund eins og hér hefur komið fram. Það er ljóst að málið er grafalvarlegt og áfallinn og áfallandi kostnaður er mjög umtalsverður á öllum sviðum hrossamennsku. Ég nefni bara eitt, að það er talið að 20% ferðamanna sem koma til landsins tengist hestamennsku með einum eða öðrum hætti. Frummælandi hefur gert afar góða grein fyrir þessum hliðum málsins og aðrir og ég vil leggja áherslu á nokkra hluti sem komu fram á fundinum.

Fram hafa komið einkenni veirusýkingar og það hefur verið prófað fyrir þeim, en prófanirnar reynast neikvæðar. Þetta virðist því vera áður óþekkt veira. Þetta er loftborið smit sem hefur valdið hraðri og mikilli útbreiðslu sem veldur verulegum áhyggjum. Þetta passar raunar betur við bakteríusýkingu en menn eiga erfitt með að trúa því vegna þess að smitið virðist berast með vindinum.

Hér hefur komið fram að þetta eru mestu vandræði í hestamennsku og hrossarækt frá upphafi vega og gríðarlegt áfall fyrir þessa afar svo blómlegu og vaxandi atvinnugrein.

Ég tek undir það að hagsmunaaðilar leggja meginþunga á að fé verði lagt í rannsóknir og menn komist fyrir rætur sjúkdómsins, finni út hvað er í gangi og bregðist við því. Ekki síður hafa þeir lagt þunga áherslu á að gerð verði sóttvarnaáætlun í nánu samstarfi við hagsmunaaðila, en sóttvörnum virðist vera mjög ábótavant í dag. Menn ganga að því er virðist hirðuleysislega um, sérstaklega í tengslum við ferðir erlendis, jafnvel með reiðtygi og búnað sem þeim fylgja.

Ég tek sérstaklega undir ályktun hagsmunaaðila frá 31. maí 2010 og beini því til ríkisstjórnarinnar að ljúka málinu hið fyrsta, klára framlagið til greinarinnar, og til sjávarútvegsráðherra að setja af stað vinnu við sóttvarnaáætlun.