138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

staða hestatengdrar starfsemi í kjölfar hrossapestarinnar.

[15:28]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa jákvæðu og áhugaverðu umræðu og þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, svo langt sem þau ná.

Ég sakna þess hins vegar að í svörum hans kom ekki fram að teknar hafi verið ákvarðanir um þau mál sem ég nefndi sérstaklega. Á ég þá ekki síst við og alveg sérstaklega spurninguna um það hvort lagðir verði fjármunir til Matvælastofnunar og Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum til að rannsaka þennan sjúkdóm. Tíminn skiptir nefnilega miklu máli í þessu sambandi. Það fer ekkert á milli mála að í þessum efnum verðum við að herða okkur. Við verðum einfaldlega að standa þannig að málum að við vinnum með skynsamlegum og skipulegum hætti að þessum rannsóknum.

Ég er ekki talsmaður þess að hið opinbera leggi fjármuni almennt inn í atvinnustarfsemi, en þetta er ekki spurning um það. Við erum að fást við hamfarir, hamfarir sem eru mjög alvarlegar fyrir atvinnugrein sem er gífurlega fjölbreytt, eins og hefur glögglega komið fram í umræðunni, atvinnugrein sem teygir anga sína um land allt og hefur m.a. þá sérstöðu að vera bæði þýðingarmikil í dreifbýli og þéttbýli. Þess vegna er gríðarlega mikið í húfi.

Til viðbótar við þetta vil ég árétta það sem ég sagði áður. Það er að í öðru lagi þurfum við að efla almenna kynningarstarfsemi, þá á ég ekki við landkynningarstarfsemi í því sambandi, ég á við hina almennu kynningarstarfsemi sem lýtur m.a. að umgengni við hesta til að koma í veg fyrir útbreiðslu smitsjúkdóma eins og þessa. Í þriðja lagi vil ég síðan nefna landkynningarmálið. Það vill þannig til að íslenska ríkið leggur núna af mörkum 300 millj. kr. og þess vegna horfa menn auðvitað til þessara fjármuna og spyrja: Er ekki hægt að nota hluta af þessum peningum þannig að hestamennskan fái sinn skerf til að efla á ný landkynningu í tengslum við hestamennskuna? Nú er búið að leggja mikla peninga til landkynningarstarfsemi bókstaflega í tengslum við landsmótið sem átti að halda um næstu mánaðamót. Þeir peningar munu auðvitað nýtast að einhverju leyti en hins vegar er ljóst að hluti af þeim (Forseti hringir.) peningum er glataður vegna þess að landsmótið verður ekki haldið. Þess vegna hljótum við (Forseti hringir.) að horfa til þess að ríkið leggi hluta af þeim peningum sem búið er að taka frá til landkynningarstarfsemi sérstaklega til þessara verkefna.