138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[16:06]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Það er ljóst að hrunið mikla sem varð haustið 2008 má að stórum hluta eða einhverjum hluta rekja til þess að reglugerðarumhverfinu sem umlykur fjármálamarkaðinn var ábótavant. Það bjó til gloppur sem mögnuðu upp áhættu í kerfinu sem síðan leiddi til þess að kerfisáhættan var orðin slík að ekki varð við neitt ráðið. Að lokum hrundu viðskiptabankarnir þrír. Í kjölfarið var hér gjaldmiðlakreppa, kreppa í efnahagslífinu, pólitísk kreppa og við fengum þessa efnahagslegu óáran yfir okkur.

Við höfum rætt þetta frumvarp mikið. Ég hélt nokkrar ræður í 2. umr. og setti fram ýmis sjónarmið og benti á að þetta væri bútasaumur. Margar breytinganna yrðu til mikilla bóta, aðrar síður. Á heildina litið mundi það að koma þessum breytingum í gegn skapa falska öryggiskennd og menn mundu sofna á verðinum. Varðandi fjármálamarkaðina þá þarf að fara fram heildstæð úttekt á reglugerðarumhverfinu, á eftirlitshlutverkinu og á starfssviði einstakra stofnana til að við getum sofið róleg.

Því lagði ég það til að við mundum reyna að skoða málið heildstætt. Ég stakk upp á því að fá einhverjar af þeim alþjóðastofnunum sem við erum aðilar að til þess að gera heildstæða úttekt í samhengi við það sem er að gerast á hinum alþjóðlega fjármálamarkaði. Við erum langt frá því að vera ein á báti þegar kemur að því að reglugerðarumhverfi fjármálamarkaða sé ábótavant. Nú fer fram mikil umræða á vegum Evrópusambandsins og í einstökum aðildarríkjum þess. Jafnframt hefur umræðan verið gríðarlega mikil í Bandaríkjunum og þar hafa komið upp mjög róttækar hugmyndir, til að mynda að leiða fram breytingar innan stóru bankanna þannig að stór hluti eigin viðskipta verði bannaður sem mun leiða til þess að það myndast fjárfestingarbankar annars vegar og viðskiptabankar hins vegar.

Af hverju ætti það að vera eftirsóknarvert að skilja að viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi? Jú, eðli sínu samkvæmt taka viðskiptabankar við innlánum og sparifjáreigendur treysta innlánsstofnunum til að varðveita og ávaxta þá fjármuni sem settir eru inn í bankana. Eðli fjárfestingarbankastarfsemi er hins vegar þannig að þar er tekin áhætta. Þar eru menn að spekúlera — getum við sagt ef maður má sletta — í meiri áhættu en í hefðbundinni viðskiptabankastarfsemi. Kenningin er að þessi starfsemi megi ekki setja áhættu á viðskiptabankastarfsemina þannig að bankinn geti ekki staðið við skuldbindingar sínar.

Ég fór ítarlega yfir þetta hér í 2. umr. Ég benti líka á fleiri hluti. Ég benti á að eftirlitshlutverkið ætti að sameina á einum stað. Ég benti á að annars vegar væri Seðlabankinn, sem samkvæmt lögum fylgist með kerfisáhættu og tryggir fjármálastöðugleika, og hins vegar Fjármálaeftirlitið, sem fylgist með rekstri einstakra banka, að þeir fari að lögum og reglum og að ekki komi upp of mikil áhætta í einstökum bönkum. Ég benti á að það fyrirkomulag kom til í kjölfar mikillar þróunar sem varð bæði í Bandaríkjunum og einkum í Evrópu og má rekja það aftur til ársins 1998 þegar Gordon Brown, þáverandi fjármálaráðherra Bretlands, aðskildi seðlabankastarfsemi og fjármálaeftirlitsstarfsemi þar í landi. Það voru mikil mistök, vegna þess að þetta fyrirkomulag leiðir til þess að eftirlit með kerfisáhættu í fjármálakerfinu og fjármálalegum stöðugleika er ekki sem skyldi.

Ég ræddi líka um það að ég og félagi minn, Frederic Mishkin prófessor, lögðum fram tillögu í skýrslu sem við skrifuðum snemma árs 2006. Þar bentum við á þessar staðreyndir og lögðum til að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið yrðu sameinuð. Því miður var ekki farið að þeirri tillögu, en það er annað mál. Nú hafa fleiri tekið undir þetta með okkur Mishkin prófessor og til stendur að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra setji á laggirnar nefnd sem muni skoða kosti og galla sameiningar Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.

Í framhaldsnefndaráliti meiri hluta viðskiptanefndar á þskj. 1263 eru nokkrar breytingartillögur. Áttunda greinin endurspeglar það sem kom fram í þessari umræðu þar sem segir, með leyfi forseta

„Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Efnahags- og viðskiptaráðherra skal skipa nefnd sem hafi það hlutverk að móta stefnu um framtíðaruppbyggingu fjármálakerfisins með hliðsjón af ábendingum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, væntanlegum tillögum þingmannanefndar Alþingis um nauðsynlegar lagabreytingar og þeim breytingum sem gerðar hafa verið á lagaumhverfi fjármálageirans eftir fall bankanna.“

Þá eru taldir upp nokkrir af þessum liðum sem mér hefur orðið mjög tíðrætt um. Þar segir, með leyfi forseta:

„Nefndin skal m.a. skoða stöðu og starfsumhverfi sparisjóða …“

Hv. þm. Einar Guðfinnsson hefur haft sérstakan áhuga á þessu máli og talað máli okkar sjálfstæðismanna. Þá er rætt um að skoða beri eignarhald fjármálafyrirtækja á vátryggingafélögum og öfugt. Þetta er ákvæði sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson var mikill áhugamaður um og er mjög nauðsynlegt að skoða. Síðan er talað um reglur um hámarkseignarhlut í fjármálafyrirtækjum og hvernig best sé að tryggja dreift eignarhald. Jafnframt er talað um hvort skilja beri að starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka.

Ég hef talað mikið um að við þurfum að hyggja að báðum þessum atriðum líkt og sömuleiðis hv. þm. og formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson.

Það eru fleiri atriði sem þurfa að koma til skoðunar. Ég treysti því að í skipunarbréfi efnahags- og viðskiptaráðherra muni þau koma fram.

Ég hef einnig talað um það hvernig eigi að nálgast það að ná fram þeim markmiðum sem eru æskileg til þess að minnka áhættu í fjármálakerfinu og kerfisáhættuna og tryggja þar með betur fjármálastöðugleika. Það er hægt með ýmsum ráðum. Tökum sem dæmi að aðskilja starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Einfalt væri að banna starfsemi þeirra undir sama þaki. En það getur líka haft afleiðingar. Slíkar afleiðingar leiddu m.a. til þess að fjármálaráðherra Bandaríkjanna afnam hin svokölluðu Glass-Steagall lög sem bönnuðu slíkt. Það er hægt að ná sama markmiði án þess að trufla starfsemi sem sannarlega á heima í viðskiptabönkum með því að fara svipaða leið og Paul Volcker, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, hefur stungið upp á. Í Volcker-reglunum, sem kenndar eru við hann, eru lagðar miklar takmarkanir við eigin viðskiptum banka sem forðar þeim frá áhættutöku, t.d. í framtaksfjárfestingarsjóðum, í alls konar vogunarsjóðum o.s.frv. Með því skilur maður fjárfestingar- og viðskiptabankastarfsemi að á mun jákvæðari hátt heldur en með einföldu banni eins og í Glass-Steagall lögunum. Það er hægt að ná þessu sama markmiði á mismunandi vegu.

Ég tel að eftir að búið er að skilja fjárfestingar- og viðskiptabankastarfsemina að sé ekkert að því að vátryggingafélög séu í eigu viðskiptabankanna. Þeir geta komið inn í starfsemi sem er eðlileg þar, vegna þess að vátryggingastarfsemi snýr í eðli sínu að heimilum, þannig að þar væri hægt að ná fram þeirri þjónustu á góðan og hagkvæman hátt.

Jafnframt tel ég að hámarkseignarhlutur í fjármálafyrirtæki, sem gæti verið 10–15%, ætti eingöngu að eiga við um viðskiptabankastarfsemi. Ég hef aftur á móti ekki séð nein haldbær rök fyrir því af hverju fjárfestingarbanki þyrfti að vera í dreifðri eignaraðild þó að viðskiptabanki þyrfti þess tvímælalaust. Þannig að í þessu máli eru mörg sjónarmið.

Nefnd efnahags- og viðskiptaráðherra þarf að inna af hendi mikið starf til þess að reglugerðaverkið um íslenska fjármálamarkaðinn verði gert sem best úr garði. Það er mikilvægt að þar sé vandað til verka svo ekki sé verið að búa til eitthvað sem gefur fólki falska öryggiskennd hér á seinustu metrum þingsins. Ég held að þessi áttunda breytingartillaga í framhaldsnefndarálitinu endurspegli það vel og muni koma í veg fyrir það.