138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[16:37]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal en hann ræddi einmitt um grundvallarmálin sem ég held að við ættum að ræða í þessu samhengi. Grundvallaratriðið er hvernig fjármálakerfi við viljum sjá. Ég las upp úr rannsóknarnefndarskýrslunni í dag um það þegar erlendur fræðimaður færði rök fyrir því að með einum eða öðrum hætti — hann setti það innan gæsalappa — væru bankakerfin í þeim löndum sem við berum okkur saman við með ríkisábyrgð. Ástæðan fyrir því að þau væru með ríkisábyrgð væri að löndin vildu ekki að fjármálafyrirtæki færu á höfuðið út af þeim afleiðingum sem það hefur í för með sér. Þar erum við t.d. komin að þeirri grundvallarspurningu hvað við eigum að ganga langt, bæði með reglugerðir og reglur sem hafa að markmiði að minnka áhættu skattgreiðenda, vegna þess að meðvitað eða ómeðvitað erum við með þessa miklu ábyrgð skattgreiðenda á fjármálakerfinu.

Þá erum við einmitt komin að innstæðutryggingunum. Hv. þm. Pétur H. Blöndal talaði um að við þyrftum að ræða og huga sérstaklega að sparifjáreigendum. Hann benti réttilega á að auðvitað er það grunnurinn að fjármálakerfinu og þær aðgerðir sem farið er í núna hafa svo sannarlega ekki verið að hjálpa sparifjáreigendum. Það að setja veðkröfu fram yfir innstæðutryggingarsjóð og þar af leiðandi hagsmuni innstæðutryggingar er eitthvað sem við munum sjá sem almenna reglu í fjármögnun bankanna á næstu árum og kannski áratugum.

Ég er að vísu þeirrar skoðunar að þegar við erum að tala um skuldara og sparifjáreigendur sé algjört forgangsmál að taka á skuldamálum heimilanna. Það er skömm að því að þingið sé ekki búið að ganga frá þeim málum og við séum núna á handahlaupum við það á síðustu dögum þingsins. Alþingi er enginn sómi að því. Við ættum þessa síðustu daga að ganga frá því máli og engu öðru, setja önnur mál í forgang en klára það sem snýr að skuldugum heimilum. Það er hægt en þá þurfa menn að einbeita sér að því. Við erum að einbeita okkur að öðru núna.

Virðulegi forseti. Þá erum við komin að því sem varðar innstæðurnar og hversu mikið við eigum að tryggja þær en það er grunnurinn í því kerfi sem við erum búin að byggja upp. Ég hef miklar áhyggjur af því að þar hafi menn gengið of langt með því að vera með beina eða óbeina ríkisábyrgð á fjármálastofnunum. Mér finnst nákvæmlega þessi þáttur sem við erum að fara í núna, að fara með innstæðutryggingar úr 50.000 evrum í 100.000, eða í rauninni úr 20.000 í 100.000, vera fullkomið glapræði við þessar aðstæður. Nú snýr þetta ekki beint að okkur heldur er þetta það sem Evrópusambandslöndin hafa gert. Miðað við það sem við höfum skoðað og séð er ég ansi hræddur um að margar af þeim þjóðum sem við berum okkur saman við eigi eftir að ganga — vonandi ekki jafndjúpt eins og við í þeim vanda sem tengist bankahruninu, en ég er ansi hræddur um að þau eigi eftir að taka fleiri skelli en þá sem hafa komið fram núna. Það mun auðvitað koma niður á okkur með einum eða öðrum hætti en stóra verkefnið fyrir heiminn núna er að búa til nýtt fjármálaumhverfi sem mun sinna sínu hlutverki. Við hefðum ekki lent í því sem við lentum í ef allt það reglugerðarverk sem sett var upp í okkar landi og öðrum hefði sinnt sínu hlutverki. Það er nú bara kjarni málsins.