138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[16:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við fjöllum um lög um fjármálafyrirtæki. Þetta er fyrsta löggjöfin sem við setjum til að reyna að læra af því sem gerðist í kjölfar efnahagshrunsins. Ég vil í upphafi máls míns segja að það veldur mér miklum vonbrigðum hvernig hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra leggur þetta mál fram. Í raun og veru er ekki tekið á stærstu hlutunum sem nauðsynlegt er að taka á og við hefðum átt að læra hvernig við ættum að bregðast við haustið 2008. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur glöggt í ljós hverjar stærstu veilurnar voru í bankakerfi landsins og uppbyggingu og innviðum þess.

Í þessu frumvarpi er ekki tekið á stærstu málunum sem mikilvægt er að taka á. Það er líka mikilvægt, virðulegi forseti, að við séum ekki að búa til eitthvert falsöryggi. Hv. viðskiptanefnd hefur gert gríðarlega miklar breytingar á málinu í meðferð sinni og fjallað mikið um það og lagt mikla vinnu í það og á þökk skilið fyrir það.

Virðulegi forseti, mér finnst að við nýtum ekki þetta fyrsta tækifæri til að bregðast við og læra af efnahagshruninu sjálfu. Það þarf ekki að lesa skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis lengi til að sjá hvernig þetta gekk fyrir sig og hversu sýkt þetta kerfi var orðið. Nokkrir einstaklingar bæði áttu fyrirtækin og stýrðu þeim og síðan er rakið mjög vandlega í skýrslunni hvernig þetta gerðist allt í raun og veru. Í þessu frumvarpi er ekki brugðist við þeim stóru vandamálum sem verður að bregðast við. Það finnst mér dapurlegt, virðulegi forseti. Það er til að mynda ekki brugðist nægilega við eignarhaldi eða hvort æskilegt sé að hafa fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Í raun og veru, virðulegi forseti, verð ég að lýsa miklum vonbrigðum með það hvernig hæstv. ráðherra hefur unnið þetta mál.

Í ljósi reynslunnar af því sem við erum nýbúin að upplifa er líka mjög dapurlegt að þetta skuli vera gert með þessum hætti. Það er teiknað upp í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis hvernig þessi fyrirtækjatengsl voru orðin, krosseignatengsl, raðeignatengsl eða hvað það heitir, og þetta er nánast eins og risavaxinn kóngulóarvefur sem illgerlegt er að rekja og gera sér grein fyrir og ekki nokkur einasta leið að átta sig á því hvernig þetta fór allt saman fram. Í frumvarpinu er ekki tekið á þeirri veilu sem er í kerfinu en gríðarlega mikilvægt er að það verði gert.

Ég verð þó að segja, virðulegi forseti, að þær breytingartillögur sem koma fram í framhaldsnefndaráliti hv. viðskiptanefndar og sú umfjöllun sem átti sér þar stað á milli 2. og 3. umræðu eru til mikilla bóta fyrir málið en alls ekki nægilegra bóta. Ég bind reyndar miklar vonir við þá tillögu meiri hluta hv. viðskiptanefndar að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra skipi nefnd sem hafi það hlutverk að móta stefnu og framtíðaruppbyggingu fjármálakerfisins með hliðsjón af ábendingum í skýrslu rannsóknarnefndar. Ég fagna þeirri breytingartillögu og bind miklar vonir við að þá verði tekið á þeim hlutum sem þarf að fara yfir hvað varðar heildarmynd fjármálafyrirtækja.

Virðulegi forseti, ég vil sérstaklega vekja athygli á þeirri veilu sem er í hlutafélagaforminu, að menn geta átt hringekju fyrirtækja sem geta síðan hugsanlega eignast hlut í bankanum. Það er líka þannig, virðulegi forseti, að í dag vitum við ekki hverjir eiga tvo stærstu bankana. Það vitum við ekki. Það sem við vitum er að hlutafélag, sem er í eigu kröfuhafa, var stofnað til þess að við kæmumst ekki að því hverjir kröfuhafarnir væru. Það finnst mér óásættanlegt, því mér hefur verið sagt það, virðulegi forseti, og hef lesið það í fjölmiðlum að kröfurnar hafi gengið kaupum og sölum. Þótt menn haldi því fram að það sé nokkurn veginn vitað hverjir kröfuhafarnir voru við fall bankanna er ekki sjálfgefið að þeir séu það enn í dag. Við sáum fréttir af því fyrir ekki svo löngu síðan að vogunarsjóðirnir eða hrægammarnir, eins og þeir eru stundum kallaðir, ásælast jafnvel kröfur einstaklinga hér á landi til að komast yfir eignarhlut þeirra og eignast bankana að nýju. Við munum í raun ekki vita hverjir eigendur bankanna verða fyrr en við sleppum af þeim hendinni og skilanefndirnar og slitastjórnirnar skila af sér.

Á undanförnum mánuðum, frá því að bankarnir voru stofnaðir, hefur komið fram að verð á kröfum hefur hækkað í kaupum á milli sjóða. Þannig að gríðarlega mikilvægt er, virðulegi forseti, að menn skoði þessa hluti og fari mjög vandlega yfir hvernig þetta er.

Í raun og veru er umhverfi okkar alveg með ólíkindum. Við erum að fjalla um þetta mál á Alþingi og fáum ekki að vita hverjir eiga nýju bankana, nema Landsbankann. Við vitum ekki hverjir eiga tvo stærstu bankana, Arion og Íslandsbanka, við fáum ekki lista yfir kröfuhafana. Í öðru lagi fáum við engar upplýsingar um það hvert afskriftahlutfallið var á milli gömlu og nýju bankanna þegar þeir voru stofnaðir. Þetta er allt þokukennt.

Í framhaldsnefndaráliti hv. viðskiptanefndar er lagt til að endurskipulagningu þeirra fyrirtækja sem fjármálafyrirtækin eignast skuli lokið á innan við 12 mánuðum, þau skuli seld til baka og að ekki verði setið á þeim inni í bönkunum. Ef tíminn er of knappur til að raunhæft sé að salan fari fram með ásættanlegum árangri er lagt til að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að framlengja tímafrestinn, en þá þurfi fjármálafyrirtækin að rökstyðja í umsögn sinni af hverju þau vilji fá lengri frest til að koma fyrirtækinu í verð.

Mig langar að stoppa aðeins við þennan punkt í nefndarálitinu, virðulegi forseti, vegna þess að við höfum upplifað og séð og heyrt mörg dæmi um einmitt þessa meðferð fjármálafyrirtækja á fyrirtækjum í landinu. Fjármálafyrirtækin hafa tekið yfir bæði stór og smá fyrirtæki og eru svo með þau áfram í rekstri og keppa þá við samkeppnisaðila þeirra á markaði. Það er mjög sérkennilegt, virðulegi forseti, líka í ljósi þess að þau fyrirtæki sem voru í samkeppni við fyrirtækin sem fjármálastofnanirnar yfirtóku eru ekki komin í hendur banka, vegna þess að þau hafa ekki farið eins óvarlega og þau fyrirtæki sem því miður lenda hjá fjármálafyrirtækjum eða bönkum. Það er hægt að nefna bílaumboð, fyrirtæki í byggingariðnaði og mörg önnur. Síðan reka bankarnir þessi fyrirtæki og maður hefur heyrt sögur af því og það hefur komið fram í fjölmiðlum að eftir að þessi fyrirtæki komust í hendur bankanna niðurbjóði þau oft og tíðum mjög mikið. Þetta er varhugaverð braut, virðulegi forseti. Þessu verðum við að fylgjast vel með og ná tökum á, því að með þessu fella fyrirtæki í eigu bankanna fyrirtæki sem voru í raun og veru ábyrg og höfðu ekki fjárfest eða farið í gegnum einhverjar þvottavélar, eins og við þekkjum nú margar sögur af. Það var búið að selja fyrirtæki og skuldsetja þau, taka lán út á þau, jafnvel í tvo, þrjá hringi á milli sömu aðila eða aðila sem voru mjög tengdir.

Mjög mikilvægt er að hv. viðskiptanefnd skoði þetta líka þegar hún fer yfir heildarendurskoðun á þessum lögum um fjármálafyrirtæki. Það er náttúrlega algjörlega ólíðandi fyrir þá sem hafa verið ábyrgir í rekstri og keppt við ákveðin fyrirtæki — að þegar þau fyrirtæki fara í þrot og bankarnir eignast þau og fara að reka þau, fara þau, eða bankinn eða bankastofnunin, hugsanlega að niðurbjóða gegn þessum ábyrgu aðilum. Hver gæti ávinningurinn verið af því? Hann gæti hugsanlega verið sá að búa til einhverja viðskiptavild, búa til ákveðna veltu, meiri umsvif, sem þýðir í raun og veru að bankinn er að reyna að hækka markaðsvirði fyrirtækisins.

Þetta er umhverfið sem við erum í eftir þetta hörmulega bankahrun. Það veldur mér mjög miklum vonbrigðum, eins og ég hef sagt áður, að við skulum ekki nýta þetta fyrsta tækifæri til að skoða þessa hluti algerlega ofan í kjölinn og bregðast við þeim ábendingum sem koma fram í rannsóknarskýrslunni, þótt ég reyndar byggi miklar vonir við það þegar þessi lög verða skoðuð í heild sinni í framhaldinu. Í raun og veru má segja, virðulegi forseti, að þetta frumvarp sé eiginlega smábútur í því mikla verki sem þarf að vinna.

Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra kemur líka á óvart sé þetta í raun og veru afrakstur vinnu hans í þessu máli, en hann tjáði sig mjög mikið um þetta, a.m.k. áður en hann kom inn í ríkisstjórnina. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að það veldur mér miklum vonbrigðum.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan og þakka hv. viðskiptanefnd hvernig hún hefur unnið málið. Það er búið að laga það mikið, enda er hægt að sjá það í fylgigögnum með málinu. Ég hef sjaldan séð jafnmargar breytingartillögur með einu máli, það er í raun og veru búið að umbylta málum í heild sinni og hv. viðskiptanefnd á miklar þakkir skildar fyrir það.

Mikið verk er eftir og stærstu hlutirnir sem liggur fyrir að þurfi að laga í þessum fjármálafyrirtækjum og þær lagabreytingar sem þarf að gera eru verkefni sem bíða hv. viðskiptanefndar eða þeirrar nefndar sem hér er gert ráð fyrir að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra skipi, sem væri ekki óeðlilegt að mínu viti. Umhugsunarvert er hvort efnahags- og viðskiptanefnd hefði ekki átt að stýra þessu starfi, ég held að það hefði ábyggilega verið ágætishugmynd að a.m.k. stór hluti hennar ef ekki öll nefndin stýrði þessu starfi eftir þá miklu vinnu sem þau hafa lagt í þetta og hvernig þau hafa lagað þetta mál til og þá samstöðu sem hefur komið fram í ræðum margra hv. þingmanna um það starf sem þar fer fram.

Ég vil að lokum segja, virðulegi forseti, að það veldur mér miklum áhyggjum að þetta skuli vera það sem við bregðumst við hruninu með og að ekki skuli vera tekið betur á þeim málum sem klárlega þarf að taka á og ég nefndi hér fyrr í ræðu minni, á öllum þessum krosseignatengslum og raðeignatengslum og hvað þetta heitir allt saman. Ég vil benda þeirri hv. nefnd sem viðskiptaráðherra mun skipa að skoða mjög gaumgæfilega það frumvarp sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur lagt fram hér á Alþingi með góðum og miklum rökum og bendir þar einmitt á þá villu sem er í hlutafélagalögunum og menn nýta sér í mörgum löndum um allan heim.