138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[17:19]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég sé þetta í grófum dráttum þannig að þeim mun stærri hlut í bönkunum sem menn sækist eftir að eiga, þeim mun meiri hömlur þurfi að vera á viðskiptum þeirra við bankana sjálfa, þeim mun minni lán eigi þeir að geta tekið hjá viðkomandi bönkum og þeim mun minna sé heppilegt að þeir þvæli sínum eigin málum saman við mál bankans. Sums staðar hafa menn látið þetta gilda eftir ákveðnum eignarhlutum. Það er hægt að hafa eignarhlutsviðmiðin í þessu efni tiltölulega lág og þannig er ég þeirrar skoðunar að það eigi að ganga lengra en gert er í þessu frumvarpi.

Hvernig getum við komið í veg fyrir að bankarnir verði þessir aðalleikendur? Þar horfi ég til þess að við skoðum leiðir til að setja annaðhvort miklar hömlur á banka sem eru með mikil innlán, að það sé búið þannig um hnútana að einhverjar tilteknar eignir standi þá þeim innlánum til tryggingar þannig að menn grípi ekki í tómt í efnahag bankans ef áhættusamar fjárfestingar bankans fara úrskeiðis, eða að skilja þar hreint á milli.

Ég tek það fram líka hér að ég tel að fjárfestingarbankar geti gegnt gríðarlega mikilvægu hlutverki. Ég hef bara áhyggjur af því ef banki sem tekur við miklum innlánum notar þau til að fara í áhættusamar fjárfestingar. Sérstaklega á það við ef við erum að fara inn í það umhverfi að ríkið eigi að bera ábyrgð á einhverri lágmarksinnstæðu. Í prinsippinu er ég á móti því að ríkið beri nokkra ábyrgð á innstæðum í einkabönkum. Ég vil ekkert slíkt kerfi. Mér sýnist Evrópusambandið vera að taka upp slíkt kerfi, feta sig lengra í átt til ríkisábyrgðar á lágmarkstryggingu og það getur verið að við endum með að þurfa að innleiða einhvers konar útgáfu (Forseti hringir.) af því.