138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[17:21]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta ágæta svar. Auðvitað þurfum við að leita viðeigandi leiða til að botna þær stóru spurningar er varða nýtt fjármálakerfi okkar. Eitt af því sem vakti athygli mína og hefur vakið á síðustu missirum er þetta misvægi í ábyrgð lánveitenda annars vegar og lántakenda hins vegar. Mér hefur virst á ýmsum störfum hinna föllnu banka að þar hafi verið geyst fram af meira kappi en forsjá við lánveitingar. Þess vegna spyr maður sig óneitanlega við nýja löggjöf um fjármálafyrirtæki hvort setja eigi einhverjar hömlur á lánveitingar alls konar lánastofnana, þar með talið bílalánafyrirtækja, hvort ábyrgð þessara fyrirtækja sem eru á sumum tímaskeiðum hreinlega að veiða til sín lántakendur þurfi ekki að vera meiri og hvort þennan þátt í útlánastarfseminni þurfi ekki að skoða sérstaklega.