138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[17:27]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get út af fyrir sig tekið undir það með hv. þingmanni að þetta er stórt álitamál varðandi þennan aðskilnað. Maður á m.a. að spyrja sig: Var skortur á þessum aðskilnaði meginorsökin fyrir hruni bankanna? Ég held reyndar að meginorsökin hafi verið dálítið önnur. Það voru hins vegar ýmis önnur mein sem birtust okkur í viðskiptaumhverfinu sem leiða hugann að því hvort þennan aðskilnað þurfi ekki að gera. Öll umræðan sem á sér stað um innstæðutryggingarkerfin, um framtíðina og uppgjörið við það sem gerðist vegna skorts á eignum á móti innstæðum hlýtur að verða okkur tilefni til að spyrja okkur spurninga í þessu efni.

Ég vil taka það fram að það er ekkert sem kemur í veg fyrir það að við setjum okkur hér strangari reglur að þessu efninu til en gilda annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu. Í sjálfu sér gætu bankar sem hefðu ekki slíkan aðskilnað verið með starfsemi hér, annaðhvort beint yfir landamærin eða í gegnum útibú, þótt þeir gætu ekki stofnað dótturfélög hér þannig að við þurfum ekki að hlíta Evrópulöggjöfinni varðandi þá banka sem ætla að starfa á Íslandi eða reka starfsemi sína á grundvelli íslenskra laga.

Þetta er sem sagt eitt af stóru álitaefnunum ásamt öllu hinu sem ég tiltók og við höfum nú ákveðið að fari í nefnd. Ég styð þá tillögu sem kemur frá nefndinni að ráðherrann skipi nefnd til að fara nánar ofan í kjölinn á þessu.