138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[18:04]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem ekki hér upp til andsvars við ræðu hv. þingkonu, Ólafar Nordal, einfaldlega vegna þess að ég heyrði hana ekki. Ég er hér til þess að leiðrétta misskilning sem kom fram í Fréttablaðinu í dag. Þetta er í annað skipti í dag sem ég geri þetta, en mér liggur þetta nokkuð þungt á hjarta vegna þess að við framsóknarmenn höfum barist fyrir því að stjórnlagaþing verði að veruleika. Í blaðinu var gefið í skyn að við ætluðum að leggjast í einhvers konar málþóf, sem er eins fjarri lagi og hugsast getur, og við værum á móti því að færa valdið til kjörinna fulltrúa utan Alþingis. Það er líka af og frá. Þetta var í leiðara Fréttablaðsins, eftir ritstjóra Fréttablaðsins, hinn ágæta Ólaf Þ. Stephensen. Ég ætla að ítreka þessa leiðréttingu. Við framsóknarmenn höfum barist fyrir stjórnlagaþingi. Við settum það á oddinn ásamt því að heimilunum yrði mætt, þegar við vörðum minnihlutastjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar falli. Það er virkilega sárt þegar vandaðir blaðamenn fara ekki rétt með í þeim efnum.