138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[18:05]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Þetta er í annað sinn sem ég tala um þetta mál hérna í 2. umr. Á milli þessara tveggja ræðna hefur það gerst að málið hefur tekið algjörum stakkaskiptum. Nú hefur það verið afgreitt út úr allsherjarnefnd í góðri sátt og mjög víðtækri samvinnu. Áður var það frumvarp sem var lagt fyrir og keyrt í gegn með meirihlutavaldi. Á þessu er grundvallarmunur. Nú líta mál þannig út að mínu viti að búið er að setja saman verkferli til að semja eða uppfæra stjórnarskrá fyrir íslenska lýðveldið, með þeim hætti að víðtækt samráð verði með þjóðinni og lýðræðisleg aðkoma þjóðarinnar tryggð. Það var grundvallaratriði af minni hálfu og réði neikvæðri afstöðu minni til frumvarpsins, sem hér var fyrst lagt fram. Á því hefur orðið sú grundvallarbreyting að verkferlið er orðið, ekki lengra en mun víðtækara. Fyrst tekur til starfa nefnd valinkunnra manna, spekinga, sérfræðinga — stjórnlaganefnd eða hvað við viljum kalla slíka nefnd — sem tekur saman gögn sem varða málið, velur úr þeim gögnum og fjallar um stjórnarskrárgerð af skynsamlegu viti, þekkingu og umhugsun og undirbýr jarðveg sem síðan sprettur upp úr þjóðfundur sem kallaður er saman. Það er stór fundur sem kallaður er saman með slembiúrtaki sem á að endurspegla allar hliðar, allar skoðanir í íslensku þjóðfélagi. Síðan kemur til skjalanna stjórnlagaþing sem er kosið í almennum kosningum og á að hafa 25–31 fulltrúa í tvo mánuði og upp í fjóra til að fjalla um stjórnlagagerðina.

Þetta er svolítið flókið og erfitt ferli, en ég er ánægður með hina víðtæku aðkomu og að gert sé ráð fyrir því að gera þetta í samráði og samvinnu við þjóðina alla þannig að hverjum manni gefist kostur á að koma sínum skoðunum á framfæri.

Ég hygg að með frumvarpinu eins og það lítur út núna séum við mun líklegri til að standa að leikslokum uppi með ágæta og nútímalega stjórnarskrá, heldur en ef hin leiðin hefði verið farin. Það er ekki útilokað að við fengjum ágæta stjórnarskrá með þeim einfalda hætti að kjósa stjórnlagaþing og skipa því að semja stjórnarskrá sem við sætum síðan uppi með ef þjóðin samþykkti hana. Það er alls ekkert útilokað. En ég held að sú leið sem stungið er upp á að fara, og er kannski svolítið flókin, sé mun líklegri til að skila góðum árangri. Umfram allt er hún líkleg til að stuðla að aukinni sátt í þjóðfélaginu þegar þjóðin sannfærist og öðlast um það örugga vissu að hér sé verið að reyna að leita eftir þeim straumum sem nú renna um vitund þjóðarinnar.

Það er undirbúningsnefndin, sem kölluð er stjórnlaganefnd, sem er mér kærkomnasta viðbótin við frumvarpið eins og það lítur út núna. Hún er samkvæmt hugmynd sem prófessor emeritus Njörður P. Njarðvík setti fram á prenti og ég hef síðan talað fyrir í Fréttablaðinu. Þótt það hafi komið upp á seinni stigum málsins að hugmyndin hafi verið fundin upp af Sjálfstæðisflokknum lít ég svo á að höfundarréttur skipti litlu máli í þessu tilviki. Aðalmálið er að hugmyndin sé góð. Mér finnst þetta vera alveg prýðileg hugmynd.

Ég vildi koma hér upp og gera grein fyrir því hvernig afstaða mín til frumvarpsins hefur breyst. Ég hef alltaf verið sannfærður um að þjóðin kallaði eftir því að ný stjórnarskrá yrði samin, en mér fannst málið bera dálítið brátt að og ekki hafa verið hugsað á nægilega víðtækan hátt. Á því hefur orðið breyting og ég vil gjarnan styðja málið, jafnvel þótt í allsherjarnefnd hafi ég ekki fengið framgengt öllu sem ég hefði viljað fá framgengt. Ég get sagt með ánægju að það hefur verið tekið tillit til sjónarmiða minni hlutans og minni hlutar gerast ekki minni á þessu þingi heldur en ég.