138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[18:32]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við enn á ný um stjórnlagaþingið. Enginn þarf að efast um að allir flokkar eru sammála um að við þurfum einhvern veginn að breyta stjórnarskránni. Ég vil taka undir með síðasta ræðumanni, vinnulag í allsherjarnefnd hefur verið til fyrirmyndar. Það var langt á milli aðila þegar vinnan hófst. Framsóknarmenn lögðu áherslu á bindandi stjórnlagaþing, aðrir þingmenn lögðu áherslu á annað, sumir t.d. á sjö manna nefnd sem hefði þetta hlutverk og aðrir á þjóðfund.

Nú er komin niðurstaða í málið eins og það liggur fyrir. Ég vil þó geta þess í upphafi að nú liggja breytingartillögur að frumvarpinu fyrir þinginu. Ég er á þeim breytingartillögum að hluta en þó ekki á þeim sem snúa að nefndinni sem á að skipa — þetta kemur inn sem ein lagagrein hér — eða ákvæðinu varðandi þjóðfundinn. Það þýðir samt ekki að ég styðji ekki frumvarpið. Með því að vera ekki á þeim breytingartillögum er ég einungis að benda á að mér finnst vera búið að lengja svo í þeim forleik sem er að stjórnlagaþinginu að fyrir mína parta finnst mér þetta óþarft, enda er ekki getið um þennan aðdraganda að stjórnlagaþingi í stefnu Framsóknarflokksins eða þegar framsóknarmenn töluðu fyrir bindandi stjórnlagaþingi í fyrra.

Ég er mjög hlynnt því að faglegir aðilar komi að málinu til að halda utan um það en samt finnst mér það ekki endilega réttlæta að hafa svo fjölmenna nefnd. Það dregur úr vægi stjórnlagaþingsins sjálfs að mínu mati því að hugmyndin með stjórnlagaþingi er fyrst og fremst að þing komi saman og þeir aðilar sem eru á því þingi geri uppkast að nýrri stjórnarskrá. En þetta er niðurstaða nefndarinnar og ég er ánægð með að niðurstaða skuli vera komin. Þetta er það sem kallað var eftir, lýðræðisumbætur og stjórnarskrárbreytingar, og ég óska nefndinni, þjóðfundinum sjálfum og stjórnlagaþinginu velfarnaðar í störfum í framtíðinni.

Það sem mér finnst líka stangast pínulítið á er þetta með þjóðfundinn. Þúsund manna þjóðfundur, valinn af fólki alls staðar að af landinu, á að komast að einhverri niðurstöðu og skila henni áfram. Hann er leiðandi fyrir stjórnlagaþingið og að mínu mati, eins og ég fór yfir áðan, bindur hann aðeins hendur stjórnlagaþingsins. En kannski er samstaða í þjóðfélaginu öllu um það sem þarf að breyta í stjórnarskránni þannig að það má vel vera að þjóðfundur og stjórnlagaþing komist að sömu niðurstöðu. Við skulum líta á það með bjartsýni.

Það er svolítið gaman að segja frá því að hugmyndin um stjórnlagaþing er ekki ný af nálinni því að við undirbúning lýðveldisstofnunarinnar kom til umræðu hér á Alþingi að kalla saman stjórnlagaþing og var þessu fyrst hreyft árið 1941 af þáverandi formanni Framsóknarflokksins, Jónasi Jónassyni. Það er mikil söguleg hefð fyrir þessu í Framsóknarflokknum því að árið 1948 lagði þingmaður Framsóknarflokksins, Páll Zóphóníasson, fram tillögu á Alþingi. Síðan er sagan sú að Jóhanna Sigurðardóttir, núverandi hæstv. forsætisráðherra, lagði fram stjórnlagaþingsfrumvarp árið 1995 og í fyrra lagði Siv Friðleifsdóttir, ásamt öðrum þingmönnum Framsóknarflokksins, fram lagafrumvarp um stjórnlagaþing. Stjórnlagaþing hefur verið á stefnuskrá Framsóknarflokksins um nokkra hríð og því fögnum við framsóknarmenn því að það sé að verða að lögum, miðað við það samkomulag sem nú liggur fyrir og fulltrúar stjórnmálaflokkanna hafa lýst.

Ég fór yfir það áðan að framsóknarmenn hefðu viljað fá bindandi stjórnlagaþing, sem væri bindandi á þann hátt að það sem kæmi út úr því mundi binda hendur Alþingis þannig að frumvarpið þyrfti ekki að koma hingað inn til atkvæðagreiðslu. Þegar nefndin hóf störf af fullum krafti í síðasta hluta þessarar vinnu varð okkur betur ljóst að tæknilega er það ekki hægt. Við lítum því svo á að þetta sé næsti kostur við að hafa bindandi stjórnlagaþing, því að stjórnarskráin býður hreinlega ekki upp á það. Þetta minnir mann á og sýnir fram á það að þegar mál eru lögð fram á Alþingi verður að vera búið að kanna grunn þeirra mjög vel og rækilega svo að ekki séu lögð fram frumvörp sem stríða gegn stjórnarskrá.

Frú forseti. Ég er sátt við þetta starf. Ég þakka allsherjarnefnd kærlega fyrir störf hennar og nýjum formanni nefndarinnar, Róberti Marshall, kærlega fyrir þolinmæði hans. Hann er nýtekinn við formennsku í allsherjarnefnd og hefur haldið á málinu með mikilli prýði. Auðvitað voru átök inni á milli eins og gerist en þetta er niðurstaðan og ég fagna henni. Ég kem til með að fylgja framhaldsnefndaráliti eftir í 3. umr., ég er að vinna það núna og ætla að hafa það mjög vandað því að menn eiga eftir að horfa mjög til þingskjala sem fylgja málinu. Við þessa ákvörðun fá t.d. lögfræðinemar mjög mikið að skrifa um og þetta er úrvalsefni í ritgerð.

Ég læt þetta þá duga að sinni en ég mun tala aftur við 3. umr. Framhaldsnefndarálitinu verður dreift um leið og það verður tilbúið svo þingmenn geti kynnt sér það en þar koma fram áherslur mínar og Framsóknarflokksins. Síðan tökum við til við að greiða atkvæði um málið þegar þar að kemur.