138. löggjafarþing — 137. fundur,  11. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[18:39]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi í upphafi segja eins og aðrir hv. þingmenn sem hér hafa talað í dag að það starf sem fram hefur farið í allsherjarnefnd undanfarna sólarhringa hefur verið ánægjulegt. Þar hefur kveðið að nokkru leyti við nýjan tón þar sem ekki hefur verið reynt að knýja fram niðurstöðu með meiri hluta heldur reynt að ná sáttum, a.m.k. upp að því marki sem er gerlegt. Því er full ástæða til að þakka formanni nefndarinnar og öðrum nefndarmönnum fyrir þá vinnu.

Breytingartillögurnar sem fluttar eru og hafa verið lagðar fram á þessum stað í umræðunni — því það er auðvitað rétt að hafa í huga að við erum stödd í miðri 2. umr., málið á eftir að koma aftur til nefndar á milli 2. og 3. umr. og síðan verða rætt í þriðja sinn. Málið getur því enn tekið einhverjum breytingum þannig að það er ótímabært að tala eins og hér sé komin niðurstaða, þótt niðurstöður nefndarinnar nú gefi vísbendingu um í hvaða átt málið stefnir. Enn sem komið er verður að gera það með þeim fyrirvara að málinu er ekki lokið, umræðum er ekki lokið og síðustu sólarhringar sýna okkur að það getur orðið snúningur á skömmum tíma ef svo ber undir.

Hvað það atriði varðar verð ég að segja að það er á vissan hátt óheppilegt að taka lotur í málefnum af þessu tagi. Auðvitað hafa allir í allsherjarnefnd lagt sig fram við að gera þetta eftir bestu getu en stundum þurfa hugmyndir að þróast aðeins og menn að melta þær áður en niðurstaða fæst. Ég dreg enga dul á að ég hygg að nefndarmenn hafi vissulega rætt þá þætti í þaula sem koma fram í breytingartillögunum og séu sáttir við að breytingartillögurnar séu lagðar fram á þessum stað í umræðunni, sem auðvitað var nauðsynlegt, jafnvel þótt vitað sé að málið komi aftur til nefndarinnar á milli 2. og 3. umr. Það hefði verið harla skrýtinn bragur á því að halda umræðu áfram í 2. umr. án þess að fram væru komin ný þingskjöl sem fælu í sér ákveðna stefnubreytingu á málinu. Það var nauðsynlegt að koma fram með breytingartillögurnar á þessum tímapunkti vegna þess að annars hefði umræðan nú orðið miklu ómarkvissari.

Hv. þm. Ólöf Nordal gerði grein fyrir því áðan að við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í nefndinni vorum ánægð með þær tvær meginbreytingar sem við sáum verða á frumvarpinu við framlagningu breytingartillagnanna. Annars vegar hvað varðar nefndina sem á í rauninni að undirbúa þjóðfund og stjórnlagaþing og gert er ráð fyrir að verði skipuð eða kosin hér á Alþingi og skipuð valinkunnum mönnum sem hafa þekkingu á því sviði. Í nefndinni var rætt um hvernig ætti að skilgreina þennan hóp og hvaða ramma ætti að skapa um starf hans. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég er prýðilega sáttur við hvernig það er útfært. Gert er ráð fyrir að það sé sjö manna hópur og sameiginlegur skilningur er á því að í honum eigi að vera valinkunnir einstaklingar. Í breytingartillögunni tölum við ekki um sérfræðinga vegna þess að við óttumst að það kunni að verða túlkað of þröngt. Engu að síður er ljóst að nauðsynlegt er að þeir sjö einstaklingar sem veljast til verkefnisins hafi góða þekkingu á stjórnarskránni og séu vel til þess fallnir að safna gögnum eða stýra söfnun gagna og samantekt á meginatriðum, leggja fram tillögur eftir atvikum, jafnvel fleiri en eina tillögu um sama atriði, og stilla upp mismunandi kostum gagnvart stjórnlagaþingi þegar það tekur til starfa. Með þessu móti held ég að starf stjórnlagaþingsins geti orðið markvissara vegna þess að þannig er búið að vinna ákveðna forvinnu sem ella hefði hugsanlega þurft að eiga sér stað á þinginu sjálfu. Þess vegna er rökrétt að stytta tímann sem þingið á að starfa.

Varðandi starfstímann tek ég undir það sem áður hefur komið fram að starfstíminn ræður auðvitað heilmiklu um kostnaðinn sem af stjórnlagaþingi hlýst. Stjórnlagaþing mun kosta talsverðar upphæðir. Það hefur verið svolítið á floti í umræðunni hér hversu mikið það átti að kosta í hinum upphaflegu tillögum. Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson nefndi 600 millj. kr. en ég hygg að það hafi verið allvarlega áætlað miðað við þær tillögur sem upphaflega komu fram í frumvarpi hæstv. forsætisráðherra. Nú er ljóst að starfstíminn verður töluvert styttri og talsvert mun sparast við það. Á móti kemur annar kostnaður í undirbúningsferlinu en ég hygg að hann verði minni þegar á heildina er litið. Við höfum kannski ekki enn þá náð að velta fyrir okkur þessu atriði í nefndinni en það er rétt að við reynum að átta okkur á því áður en afgreiðslu málsins lýkur, þ.e. hvað má ætla að ferlið allt og samþykkt frumvarpsins muni kosta. Það skiptir máli fyrir okkur þingmenn þegar við tökum afstöðu til málsins í heild, einnig þegar horft er til þess að ekki er gert ráð fyrir fjárveitingum til verkefnisins á fjárlögum yfirstandandi árs og síðan skiptir það auðvitað máli þegar horft er til fjárlagagerðar fyrir næsta ár. Þetta er atriði sem þarf að skoða.

Ég hef í máli mínu verið töluvert jákvæður gagnvart þessu og stöðu málsins en eins og hv. þm. Ólöf Nordal gerði grein fyrir í ræðu sinni rétt áðan breytir tilkoma breytingartillagnanna ekki því að við þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfum lagst gegn þeirri hugmynd frumvarpsins að setja eigi á fót sérstakt fulltrúaþing til hliðar við Alþingi til þess að fjalla um stjórnarskrármálefni. Þótt við höfum tekið þátt í starfi nefndarinnar og viljað leggja gott til málanna, og berum auðvitað eins og aðrir ábyrgð á tillögugerðinni sem átt hefur sér stað í nefndarstarfinu, höfum við alltaf haldið til haga andstöðu okkar við fyrirbærið stjórnlagaþing. Við teljum að Alþingi sé til þess kjörið að gegna þessu hlutverki ásamt öðrum verkefnum og við munum halda þeim sjónarmiðum áfram á lofti í umræðunni þar til þingið hefur lokið afgreiðslu sinni. Við teljum að það sé nauðsynlegt að fara í endurskoðun á stjórnarskránni. Við teljum að það blasi við að endurskoða þurfi ákveðna þætti hennar og erum tilbúin til að ræða fleiri þætti vegna þess að kröfur hafa komið fram um það. Stjórnlagaþingið (Forseti hringir.) sem slíkt er ekki í anda þeirra hugmynda sem við höfum sett fram um þessi efni en breytingarnar sem allsherjarnefnd hefur nú (Forseti hringir.) lagt fram eru óneitanlega til bóta. (Forseti hringir.)