138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[10:34]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við erum búin að ræða þetta allnokkuð í þingsal. Hér er um að ræða frumvarp sem er komið fram sem svar við bankakreppunni eða réttara sagt er þetta breyting á umhverfi fjármálafyrirtækja í ljósi þeirra atburða sem urðu. Við sjálfstæðismenn höfum engan veginn talið gengið nógu langt, að við séum bara að taka á hluta af vandanum.

Það skal sagt vegna þess að meiri hlutinn hefur komið til móts við margt af því sem við höfum gagnrýnt, en stærsti hluti verkefnisins er hins vegar eftir. Við erum með breytingartillögur sem miða að því að taka á hluta þess, en við megum ekki ganga þannig frá þessu máli að það dagi uppi og að við klárum ekki stóru verkefnin (Forseti hringir.) sem eru til staðar. Við greiðum atkvæði með frumvarpinu en hvetjum þingheim til að greiða atkvæði með breytingartillögum okkar sem ég kynni betur á eftir.