138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[10:35]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vil geta þess að fulltrúar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknar í viðskiptanefnd hafa gert þrjár veigamiklar breytingar á frumvarpinu milli 2. og 3. umr., í fyrsta lagi ákvæði um að fjármálafyrirtækjum beri að birta laun hvers og eins í hópi æðstu stjórnenda fjármálafyrirtækja í ársreikningum sínum og jafnframt heildarlaunatölur annarra yfirmanna í fyrirtækinu. Síðan er ákvæði um að fjármálafyrirtæki megi aðeins hafa yfirtekin fyrirtæki í 12 mánuði þegar um er að ræða fjárhagslega endurskipulagningu. Fjármálaeftirlitinu er jafnframt veitt heimild til að veita undanþágu til að koma í veg fyrir brunaútsölu á fyrirtæki sem banki hefur yfirtekið.

Að lokum er ákvæði til bráðabirgða um (Forseti hringir.) að efnahags- og viðskiptaráðherra skipi nefnd til að koma með tillögur um framtíðaruppbyggingu bankakerfisins.