138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[10:45]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar er þetta eitt af stóru málunum. Ég vil láta þess getið hér að ég tel sterk rök til að gera þessa breytingu, en það gengur auðvitað ekki að við stöndum þannig að slíkri lagabreytingu á þinginu að þessu sé kippt inn við lokameðferð þessa máls án frekari umfjöllunar eða skýringa og án frekari aðgerða í heildarsamhengi hlutanna.

Eitt af því sem á að vera okkur mjög til umhugsunar er það hvort viðskiptabankar sem safna innlánum og við höfum reynslu af að geti lent í fanginu á ríkinu geti notað þessi sömu innlán til að stunda áhættusamar fjárfestingar. Það er stóra álitaefnið. Hvernig við tökum á þessu ræðst m.a. af niðurstöðu þeirrar vinnu sem nú hefur verið ákveðið að fara í eftir meðferð þessa máls á þinginu. Ég fagna því, en tel ekki tímabært að taka þessa ákvörðun hér og nú. (Forseti hringir.)