138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[10:46]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við sjálfstæðismenn höfum talað fyrir því að það gæti verið skynsamleg leið að aðskilja fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi, nákvæmlega af þeim ástæðum sem hv. þm. Bjarni Benediktsson nefndi. Það þarf að ræða hvernig best er að gera það. Sú nálgun sem við fáum í þessari breytingartillögu er af svokölluðum neikvæðum meiði, hún á væntanlega upptök sín í svokölluðum Glass-Steagall lögum þar sem fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi er einfaldlega bönnuð. Nú virðist pendúllinn sveiflast til þess að nota jákvæða nálgun sem er kennd við Paul Volcker þar sem eigin viðskipti eru bönnuð sem leiðir til þess að viðskiptabankastarfsemi (Forseti hringir.) og fjárfestingarbankastarfsemi skilst að.

Þetta allt sem er hérna í 8. tölulið þarf að ræða í nefndinni þannig að ég segi nei í bili.