138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[10:49]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við erum hér með breytingartillögu vegna nefndar sem við höfum lagt áherslu á að hefji störf sem fyrst og fari yfir hin stóru álitaefni sem eru uppi um bankakerfið. Við töluðum um fjárfestingarbankana og viðskiptabankana, um hámarkseignarhlut í fjármálafyrirtækjum, eignarhald fjármálafyrirtækja í vátryggingafélögum og öfugt, sömuleiðis starfsumhverfi sparisjóða, svo eitthvað sé nefnt. Það hefur hins vegar komið fram að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra ætlar að skipa tvær aðrar nefndir, önnur á að skoða Seðlabankann og hin opinbert eftirlit með fjármálageiranum. Við teljum, og ég held að það séu augljós rök fyrir því og í rauninni hafa allir talað með þeim hætti, að það væri skynsamlegra að hafa þetta á einum stað þannig að yfirsýn yfir málið væri heildstæð. Við leggjum til að sameining Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka verði skoðuð sérstaklega í þessari nefnd sem við samþykkjum hér á eftir að tillögu meiri hlutans og sömuleiðis, þannig að þetta fari nú ekki frá okkur, (Forseti hringir.) að nefndin ljúki störfum 1. nóvember. Ég hvet meiri hlutann til að greiða atkvæði með því. Það væri skynsamlegt og ábyrgt og mundi minnka hættuna á að þetta gríðarstóra mál drægist á langinn.