138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[10:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við getum ekki annað en fagnað þessari breytingartillögu, enda er hún það sem við höfum kallað eftir. Í byrjun þessa ákvæðis segir, með leyfi forseta:

„Efnahags- og viðskiptaráðherra skal skipa nefnd sem hafi það hlutverk að móta stefnu um framtíðaruppbyggingu fjármálakerfisins með hliðsjón af ábendingum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis …“

Það hefur ekki verið gert, virðulegi forseti, og það frumvarp sem verður hér samþykkt tók ekki mið af vinnu rannsóknarnefndar Alþingis. Það er miður og ég verð að viðurkenna að það eru mikil vonbrigði og alveg furðulegt að meiri hlutinn hafi ekki greitt atkvæði með tillögu okkar um að við skulum skoða þetta heildstætt og að allir þeir þættir sem þurfa að vera þarna inni séu inni í þessari nefnd. Sömuleiðis veldur mér miklum vonbrigðum að meiri hlutinn skuli ekki setja tímamörk á vinnu þessarar nefndar, en það breytir því ekki að við munum styðja þetta mál og fylgja því eftir (Forseti hringir.) að það fari alla leið.