138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[10:54]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Því hefur verið haldið fram, bæði hér og í umræðunni um þetta mál, að ríkisstjórnina skorti stefnu um framtíðaruppbyggingu fjármálakerfisins. Sú breytingartillaga sem við greiðum atkvæði um hér staðfestir að svo er vegna þess að hún mælir fyrir um að skipuð verði nefnd til að móta slíka stefnu, móta stefnu um framtíðaruppbyggingu fjármálakerfisins sem ekki er til á borðum núverandi ríkisstjórnar. Þau verkefni sem bíða þessarar nefndar eru ærin, þ.e. að fara að ábendingum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, taka fyrir málefni og framtíðarsýn um sparisjóðina í landinu, eignarhald fjármálafyrirtækja að vátryggingafélögum, dreift eignarhald á fjármálafyrirtækjum og hvort skilja beri að starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Við styðjum þessa tillögu (Forseti hringir.) en hún staðfestir allt það sem við höfum sagt um að þetta frumvarp er bara hænuskref í rétta átt.