138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[10:55]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ítreka að þessi nefnd á m.a. að skoða ýmsa þætti sem hér hafa verið taldir upp þannig að hlutverk hennar er ekki það vel rammað inn að hún geti ekki tekið á öðrum þeim þáttum sem borið hefur á góma í þessari umræðu. Ég ítreka einnig að henni ber að skoða hvort skilja beri að starfsemi fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Sú umræða þarfnast miklu dýpri og vandlegri skoðunar en svo að við getum tekið afstöðu til þess hér og nú.

Ég ítreka líka að þetta frumvarp, sem við samþykkjum væntanlega hér í dag, tekur á fjölmörgum þeim ágöllum sem hafa verið á samþættingu fjárfestingarbanka og viðskiptabanka og þess vegna er þetta gott skref í þá átt að styrkja hlutverk hvors tveggja.