138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

fjármálafyrirtæki.

343. mál
[10:56]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Hænuskrefin geta líka verið til bóta þannig að ég tel mjög margt í þessu máli til mikilla bóta, jafnvel mörg hænuskref. Ég fagna sérstaklega þessari tillögu því að í nefndaráliti mínu fyrir 2. umr. lagði ég sérstaka áherslu á að við þyrftum að móta pólitíska stefnumörkun um það hvers konar fjármálamarkað við viljum hafa á Íslandi og hvers konar fjármálamarkað við getum haft á Íslandi miðað við stærð okkar. Því fagna ég mjög að þessi tillaga sé komin hérna fram. Það hefur verið tilfinning mín og margra annarra að þær aðgerðir sem við höfum gripið til eftir hrunið hafi fyrst og fremst beinst að því að endurreisa það fjármálakerfi sem við höfðum fyrir hrun. Ég hef miklar efasemdir um að það sé rétt. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að þessi nefnd fjalli einmitt sérstaklega um það hvers konar fjármálamarkað við ráðum við að hafa (Forseti hringir.) á Íslandi miðað við stærð og getu þjóðarbúsins.

Varðandi tímamörk bendi ég líka á að þingmannanefndin mun skila af sér 1. september og ég vona svo sannarlega að þessi nefnd muni skila af sér fyrir 1. janúar 2011.