138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

574. mál
[11:06]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Þetta mál í heild sinni er framfaramál og við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í iðnaðarnefnd erum á því en með fyrirvara. Fyrirvarinn stafar af því að fjármálafyrirtæki eru tekin út fyrir sviga í þessu ívilnunarkerfi sem við sjáum ekki alveg ástæðu til. Það þekkist ekki almennt innan ríkja EES þó svo að þess séu vissulega dæmi. Þessi lög voru að mörgu leyti sniðin eftir sambærilegum tékkneskum lögum en þau ná eingöngu til framleiðslufyrirtækja, ekki til þjónustu, þannig að sú röksemdafærsla að fjármálaþjónusta sé þess vegna fyrir utan á ekki við. En við styðjum þetta mál og fögnum því að nú þurfi ekki lengur (Forseti hringir.) að koma til þess að fjárfestingarsamningar við einstök fyrirtæki séu teknir inn á Alþingi hver fyrir sig (Forseti hringir.) og við teljum að þetta sé til framfara.