138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[11:18]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að endurskoða stjórnarskrána. Ýmsir kaflar í stjórnarskránni þarfnast frekari skýringa, innbyrðis ósamræmi milli greina, ólík túlkun manna á t.d. valdi forsetans og annað því um líkt. Okkur hefur ekki auðnast undanfarin ár að koma endurskoðuninni í traustan farveg. Hér er gerð tilraun til þess. Okkur þykir hún langt frá því að vera fullkomin en málið hefur þó tekið miklum breytingum til batnaðar í meðferð þingsins og síðast með tillögum frá allsherjarnefnd. Við teljum óþarft að setja á laggirnar sérstakt stjórnlagaþing eftir að samráð hefur verið haft við þjóðina á þjóðfundi og við höfum fengið valinkunna einstaklinga til að undirbúa frumvarp fyrir löggjafarvaldið sem Alþingi er. Við munum ekki leggjast gegn þessu máli heldur styðja það að endurskoðun stjórnarskrárinnar fari fram jafnvel þótt ferlið sem fram undan er sé ekki fullkomið.