138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[11:21]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þegar 2. umr. hófst um þetta mál var allsherjarnefnd ósammála í mjög veigamiklum atriðum, fjórar ólíkar skoðanir á málinu voru bornar fram en við vorum sammála um meginmarkmið, að breyta þarf stjórnarskránni. Við vorum líka sammála um mikilvægi þess að vera sammála. Þess vegna var málið aftur tekið inn óformlega í miðri 2. umr. og þess freistað að ná eins mikilli samstöðu um það og mögulegt er. Hún birtist hér í tveimur breytingartillögum. Við ætlum að taka málið inn til nefndarinnar aftur á milli 2. og 3. umr. og útbúa framhaldsnefndarálit. Það er von mín að það náist breið samstaða um málið eins langt og það getur orðið og það er mér mikið fagnaðarefni þegar haft er í huga mikilvægi þess máls sem hér er á ferðinni.