138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[11:41]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta frumvarp er lagt fram af ríkisstjórninni í kjölfar þess að íslenska ríkið var dæmt fyrir brot á ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu fyrir að innheimta iðnaðarmálagjald og skylda þar með mann sem ekki kærði sig um að vera félagsmaður í félagi sem það rann til til að inna slíka greiðslu af hendi. Þetta er mikill tímamótadómur hjá mannréttindadómstólnum og í samræmi við sérákvæði eins hæstaréttardómarans í málinu þegar það var rekið fyrir Hæstarétti Íslands á árinu 2005. Málið varðar félagafrelsi og rétt manna til að standa utan félaga sem þeir kæra sig ekki um að tilheyra og mælir fyrir um það að þá sé í rauninni ekki heldur hægt að skylda þá til að greiða til félagsins.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún eða hæstv. ríkisstjórn hafi einhverja skoðun á því hvort þessi dómur Mannréttindadómstóls Evrópu leiði til þess að fella beri úr gildi skyldugreiðslur samkvæmt öðrum lögum til annarra félagasamtaka. Á ég þá kannski fyrst og fremst við búnaðarmálagjaldið sem er að stofni til eðlislíkt iðnaðarmálagjaldinu og innheimt með sambærilegum hætti. Að sama skapi vildi ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji að skyldugreiðslur til stéttarfélaga séu í uppnámi og hvort það hafi verið skoðað á vettvangi ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) vegna þess dóms sem hér hefur verið talað um.