138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[11:44]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Eins og hv. þingmaður veit var gjaldtakan í sjálfu sér ekki dæmd óheimil af mannréttindadómstólnum heldur framkvæmdin á henni, ekki gjaldtakan sjálf, iðnaðarmálagjaldið sjálft var ekki dæmt ólögmætt. Hins vegar var framkvæmdin talin óljós og óskýr og þar með var það talið ólögmætt samkvæmt mannréttindadómstólnum. Ríkið var því ekki dæmt fyrir að innheimta gjaldið sem slíkt, heldur fyrir framkvæmdina á því og hvernig með það er farið í lögum.

Hvað varðar önnur lög hefur ríkisstjórnin vissulega tekið það mál upp og er að fara yfir það hvort hægt sé að yfirfæra dóminn með sama hætti á aðra gjaldtöku eins og t.d. búnaðarmálagjaldið. Í fljótu bragði við yfirferð yfir málið lítur svo út að eingöngu sé um það að ræða samkvæmt dómnum, sé hann tekinn bókstaflega, að gjaldið sjálft sé ekki talið ólögmætt heldur framkvæmdin. Það lítur ekki svo út að önnur gjöld eða gjaldtaka hjá hinu opinbera brjóti í bága við mannréttindasáttmálann.