138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[11:45]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu er í mínum huga nokkuð skýr. Íslenska ríkið er í þeim dómi dæmt fyrir brot gegn félagafrelsisákvæði mannréttindasáttmálans sem er í samræmi við og ekki ósvipað 74. gr. íslensku stjórnarskrárinnar um félagafrelsi. Það liggur því alveg fyrir að íslenska ríkið hefur verið dæmt fyrir að brjóta mannréttindi og af þeim ástæðum er þetta frumvarp lagt hér fram, til þess að bregðast við þeim dómi og þeirri dómsniðurstöðu og ég fagna því. Ég hef verið þeirra skoðunar að það beri að breyta því fyrirkomulagi sem núverandi lög um iðnaðarmálagjald mæla fyrir um og ég held að ekki verði hjá því komist að taka til athugunar hvort búnaðarmálagjaldið geri það líka.

Varðandi hitt atriðið sem ég nefndi, skyldugreiðslur launþega til stéttarfélaga, er það risastórt mál sem varðar þau álitaefni sem tekin eru fyrir í dóminum, þ.e. hvort hægt sé að skylda mann með lögum til þess að greiða gjald til félags sem hann hafði sjálfur ekki valið að ganga í og hefur stefnumál sem hann er ósammála. Ég hygg að margir launþegar sem hafa verið skyldaðir til aðildar að stéttarfélagi og eru ekki sáttir við þá pólitík sem viðkomandi stéttarfélag rekur hljóti margir hverjir að gera kröfu til þess að í það minnsta verði farið yfir þetta fyrirkomulag til þess að (Forseti hringir.) það liggi algjörlega ljóst fyrir hvort það stenst ákvæði Mannréttindadómstólsins (Forseti hringir.) varðandi sáttmálann.