138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[11:51]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið í máli mínu, bæði hér áðan og líka við umfjöllun um málið annars staðar og eins ef maður les dóminn, er ekki verið að dæma iðnaðarmálagjaldið eða gjaldtökuna sem slíka ólögmæta. Það er ekki talið í dómnum að hún, gjaldtakan sjálf, brjóti gegn mannréttindum. Hins vegar telur dómurinn að framkvæmdin á gjaldtökunni og framkvæmdin á því hvernig gjaldinu er ráðstafað brjóti gegn mannréttindaákvæðum. Það er þess vegna sem málið er lagt fram með þeim hætti sem hér er gert.

Af því að hv. þingmaður spyr um önnur gjöld er það ekki svo að dómurinn hafi tekið afgerandi ákvörðun um að gjaldtakan sem slík væri ólögmæt heldur framkvæmdin á þessu einstaka gjaldi. Það er þess vegna sem við erum, eins og ég sagði áðan í mínu fyrra andsvari við annan hv. þingmann, að fínkemba lögin til þess að tryggja að gjaldtakan sé lögmæt á öllum sviðum, líka á sviði búnaðarmálagjalds og annarrar gjaldtöku.

Það þýðir ekki samkvæmt þessum dómi að það leiði til þess að gjaldtöku verði hætt. Það gæti hins vegar leitt til betri og skýrari framkvæmdar á því hvernig gjaldinu er ráðstafað.