138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[11:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Gjaldtakan í iðnaðarmálagjaldinu er skattur, 0,08% af veltu allra iðnfyrirtækja í landinu er skattur. Það er í lagi. Það má leggja skatt á, ef jafnræðissjónarmiða er gætt má gera það. En það þarf að vera ákveðið hvað hann er hár og hann þarf að vera ákveðinn með lögum samkvæmt stjórnarskrá.

Fræðslugjaldið sem hæstv. ráðherra samþykkti í gær fullnægir ekki þeim skilyrðum vegna þess að það rennur ekki í ríkissjóð, það er ekki fastákveðið með lögum heldur er það samningsatriði milli tveggja óskyldra aðila, ótengdum þeim sem eiga að greiða úti í þjóðfélaginu. Samtök atvinnulífsins og ASÍ semja um þetta og fyrirtæki sem stendur utan við hvort tveggja, jafnvel með starfsmenn sem standa utan við hvort tveggja, þarf að borga. Þetta er enn þá verra, miklu verra. Í iðnaðarmálagjaldinu er sagt til hvers gjaldið á að renna. Þannig er það ekki með fræðslusjóðina, það er ekki orð um það í frumvarpinu, engin lög eru til um fræðslusjóði, sjúkrasjóði eða orlofssjóði. Mér finnst þetta vera miklu verra því að þetta brýtur stjórnarskrána á tvennan máta, bæði hvað varðar skattlagninguna, því að þar þarf að vera ákveðið með lögum hvernig það er gert, og það er gert í iðnaðarmálagjaldinu en ekki í gjaldinu til fræðslusjóðanna.

Mér sýnist því að lögin sem Alþingi samþykkti í gær brjóti stjórnarskrána að tvennu leyti og að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi dæmt í öðru málinu, þ.e. að þetta renni til félaga sem aðilinn er ekki í og hafi auk þess óskilgreind markmið, hvort tveggja á við um fræðslugjaldið. Svo brýtur það líka stjórnarskrána varðandi skattlagningarheimildina vegna þess að þarna er lagður skattur á fyrirtæki án þess að getið sé um það í lögum hversu hátt það er.