138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[11:55]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég varð örlítið áttavillt hér áðan um hvaða mál við værum að ræða. Hér erum við að ræða frumvarp til laga um breyting á lögum um iðnaðarmálagjaldið sjálft sem mun verða til þess að það gjald verður aflagt. Varðandi aðra gjaldtöku hef ég sagt við hv. þingmann að þessi dómur fjallar ekki um hvort gjaldtakan sjálf sé ólögmæt og dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki, þ.e. að gjaldtakan sjálf væri ekki ólögmæt. Hins vegar var framkvæmdin á henni óeðlileg og á því erum við að taka. Við göngum meira að segja lengra en dómurinn kveður á um með því að leggja af gjaldtökuna með öllu að endingu.

Hv. þingmaður hefur haft að ég tel allan veturinn til að ræða það mál sem hann tekur hér til umræðu og hefur ekkert með iðnaðarmálagjaldið að gera (PHB: Og gerir það heldur betur.) eða það frumvarp sem hér er mælt fyrir. Ég tel að hv. þingmaður hafi haft öll tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum (PHB: Og ríkisstjórnin líka til að bakka með það.) á framfæri með lýðræðislegum hætti í þeirri umræðu og umræðuhefð sem er á Alþingi hvað varðar gjaldtökuna sem hann nefndi og hefur ekkert með þetta mál að gera. Ég tel að við hv. þingmaður eigum samleið hvað þetta frumvarp snertir, að það nái þannig fram að ganga að iðnaðarmálagjaldið, eins umdeilt og það hefur verið, verði aflagt með öllu eftir að framkvæmd þessara laga sem við mælum hér fyrir verður að veruleika.