138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[12:12]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka að þessi dómur tekur ekki á því hvernig staða manna er gagnvart stéttarfélögum í landinu, heldur fjallar þessi dómur um útfærslu gjaldtökunnar, ekki gjaldtökuna sjálfa sem prinsippkjarnaatriði. Það er ekki það sem var dæmt þó að ég viti að hv. þm. Pétur Blöndal hefði óskað þess.

Eins og hv. þingmaður nefndi hafði einn dómari á Íslandi, Ólafur Börkur, aðra afstöðu en meiri hluti dómsins. Það er rétt að dómur Mannréttindadómstólsins tekur í öllum meginatriðum undir röksemdafærslu þess dómara en beitir engu að síður öðrum rökum.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gefur hér í skyn að ekki sé verið að fella gjaldið niður. Hér er valin praktísk útfærsla á niðurfellingu gjaldsins og ástæðan er sú að það verður eingöngu lagt á í þetta eina og síðasta sinn, en við verðum með lögum að hafa útfærsluna uppi á borði og í lagaramma. Ástæðan fyrir því að það var ákveðið að fara þessa leið er sú að þetta gjald er fært hjá fyrirtækjum og hjá iðnaðarmönnum, hjá þeim sem þetta gjald fellur á, og þess vegna er praktískt að gera þetta með þessum hætti, virðulegi forseti.