138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[12:14]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er eðlilegt að forsvarsmenn ríkisins sem sitja í ríkisstjórn reyni að gera eins gott úr málinu og mögulegt er þegar íslenska ríkið hefur verið dæmt fyrir að brjóta gegn mannréttindum borgaranna, eins og hæstv. iðnaðarráðherra reyndi að gera hér. Engu að síður hefur íslenska ríkið verið dæmt fyrir brot gegn 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og þar við situr. Ég held því ekki fram að hæstv. iðnaðarráðherra sé upphafsmaður iðnaðarmálagjaldsins. (REÁ: Verndari.) Það kom fyrst inn í lög á árinu 1975, skömmu eftir að hæstv. ráðherra fæddist þannig að ég ætla ekki að gera henni upp sakir sem hún hefur ekki unnið til. Engu að síður er þessi dómur áfall fyrir þá sem talað hafa fyrir þessu fyrirkomulagi. Gott og vel, því er verið að breyta en í þessu felst í sjálfu sér ekki annað en kerfisbreyting að mínu mati.

Ég legg áherslu á það, hæstv. forseti, að þessi dómur Mannréttindadómstólsins hlýtur að kalla á að menn endurskoði búnaðarmálagjaldið og skyldugreiðslur launþega til stéttarfélaga. Það er túlkunaratriði hæstv. ráðherra að svo sé ekki, að þessi dómur fjalli ekki um skyldugreiðslur til stéttarfélaga. Ég er ekki sammála því. Öll sömu meginsjónarmiðin og dómur Mannréttindadómstólsins byggir á eiga við í þessum (Forseti hringir.) tveimur tilvikum.