138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[12:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sagði að gjaldið yrði áfram innheimt. Það er skiljanlegt að menn telji það þar sem frumvarpið var lagt fram á fimmtudaginn klukkan 17.20 og tekið inn með afbrigðum. Þetta er enn eitt dæmi um að menn hafa hvorki tíma né orku til þess að lesa öll málin því að við erum að leysa fullt af öðrum málum og erum auk þess í umræðum hérna á Alþingi frá morgni til kvölds. Nú á ég t.d. að vera á fundi í samræmingarnefnd. Ég get það að sjálfsögðu ekki því að ég þarf að ræða iðnaðarmálagjaldið sem ég tel vera mjög brýnt.

Það stendur nefnilega í 3. gr.:

„Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

Gjald samkvæmt lögum þessum skal síðast lagt á vegna rekstrarársins 2009.“

Það verður aðeins innheimt núna þetta ár. En lögin standa áfram, það finnst mér dálítið skrýtið. Ég hefði haft allt aðra tækni við þetta. Ég hefði sagt að lögin féllu úr gildi í árslok 2010 en áfram yrði innheimt og það sem lagt er á vegna ársins 2009 yrði notað til fræðslumála. Þarna fara menn náttúrlega kringum lögin með því að kalla þetta til fræðslumála. Svo fela þeir Samtökum iðnaðarins að framkvæma þau fræðslumál.

Ég vildi benda hv. þingmanni á þetta, þetta er alla vega minn skilningur. Nú er ég ekki búinn að lesa lögin alveg í hörgul, við erum hérna að fjalla um vandamál heimilanna líka og margt annað. Það er rétt sem hv. þingmaður sagði og ég tek undir það þannig að þetta er eiginlega ekki andsvar heldur meðsvar, þetta er að sjálfsögðu mannréttindabrot. Þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins var við völd brást flokkurinn mjög hratt við mannréttindabrotum eins og öryrkjadóminum og kvótadóminum.