138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[12:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Loksins, segi ég, loksins eru menn farnir að sjá að þessi gjaldtaka, iðnaðarmálagjald og fjöldinn af öðrum gjöldum, brýtur mannréttindi. Vegna þessa hef ég flutt fjöldamörg frumvörp í gegnum tíðina með miklum rökstuðningi um bæði afnám búnaðargjaldsins, iðnaðarmálagjaldsins, STEF-gjalda og sérstaklega gjalds til stéttarfélaga sem opinberum starfsmönnum er gert að greiða hvort sem þeir vilja vera í félaginu eða ekki, með lögum frá Alþingi, sem ég held að sé alversta dæmið.

Daginn eftir dóminn, sem hefur þá verið 28. apríl, fór ég í óundirbúna fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra og sagði honum það sem þá hafði verið í fréttum, sem hann eflaust vissi, að Mannréttindadómstóll Evrópu hefði fellt dóm um að lögbundin innheimta á iðnaðarmálagjaldi bryti mannréttindasáttmála Evrópu sem Alþingi hefur lögfest, sem sagt að komið hefði í ljós að lög frá Alþingi brytu mannréttindi. Þetta ræddi ég og spurði hann hvort ekki ætti að afnema þessi lög o.s.frv. Hæstv. forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, segir í svari sínu, með leyfi frú forseta:

„Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Hún kemur mér sannarlega ekki á óvart frá þessum hv. þingmanni sem oft og iðulega hefur tekið þetta mál fyrir.

Nú liggur fyrir þessi niðurstaða frá Mannréttindadómstólnum. Við ræddum málið í ríkisstjórn í gær strax eftir að niðurstaðan lá fyrir. Það er alveg ljóst að ríkisstjórnin þarf að fara mjög vandlega yfir þessa niðurstöðu og skoða þetta mál. Því var þremur ráðherrum falið að fara ítarlega yfir málið og meta hvaða afleiðingar og áhrif dómurinn hefur.“

Áfram segir:

„Hv. þingmaður spyr sérstaklega hvort þá verði hætt innheimtu á þessu gjaldi og hvort það verði endurgreitt þeim sem það hefur verið lagt á í gegnum tíðina. Það þarf auðvitað að skoða. Mér finnst ólíklegt að um endurgreiðslu geti orðið að ræða, en auðvitað þarf að taka þetta alvarlega og skoða hvort ekki þurfi að hætta innheimtu þessa gjalds. Við viljum gefa okkur aðeins tíma til að meta þetta og skoða stöðuna.

Hv. þingmaður taldi upp nokkur önnur gjöld til viðbótar. Að gefnu tilefni skal ég beita mér fyrir því að þau gjöld sem hv. þingmaður nefndi verði sérstaklega skoðuð.“

En svo kemur, frú forseti:

„Ég tel þó ólíklegt að þau muni fá sömu niðurstöðu og iðnaðarmálagjaldið.“ — Enda er ekki búið að kæra það og það hefur ekki farið yfir Mannréttindadómstól.

Ég hamra á þessu í andsvari aftur og þá segir hæstv. forsætisráðherra, með leyfi frú forseta:

„Ég ítreka það sem ég sagði áðan, þetta mál verður tekið til rækilegrar skoðunar. Vonandi fáum við niðurstöðu sem allra fyrst í þessu máli. Þau gjöld önnur sem hv. þingmaður nefndi, eins og STEF-gjald, held ég að séu óskyld en engu að síður skal ég beita mér fyrir því að þetta verði allt skoðað í samhengi.“

Fyrir Alþingi lá frumvarp um fræðslusjóði, sem er eiginlega öllu verra, frú forseti. Það er rétt hjá hæstv. iðnaðarráðherra sem flytur þetta mál — það er svolítið merkilegt að iðnaðarráðherra flytur mál um iðnaðarmálagjald sem er í reynd skattlagning og ætti að heyra undir efnahags- og skattanefnd eins og dómurinn komst að. Innheimtan er í lagi. Það er í lagi að leggja gjald á allan iðnað í landinu sem rennur til ríkisins. Það er skattur en ætti að sjálfsögðu að heyra undir fjármálaráðherra og efnahags- og skattanefnd. En svo eru ákvæði um að þetta skuli greitt til Samtaka iðnaðarins og þar með breytist gjaldið og meira að segja þá ráðstöfun taldi Mannréttindadómstóll Evrópu brjóta mannréttindi. Samt er gjaldið ákveðið 0,08% af veltu iðnfyrirtækja og það rennur til ákveðinna verkefna hjá Samtökum iðnaðarins. Það er sagt hvað eigi að gera við þetta og hver upphæðin sé og það er ákveðið með lögum að það skuli lagt á og hverjir eigi að greiða.

Ég verð, frú forseti, að koma inn á frumvarpið sem við afgreiddum sem lög í gær, ég verð að gera það þó að hæstv. ráðherra vilji gleyma því um stundarsakir, en hann greiddi atkvæði með því í gær. Það gjald er öllu verra vegna þess að upphæðin er ekki ákveðin. Hún er samningsatriði milli tveggja samtaka, annars vegar launafólks og hins vegar fyrirtækja. — Frú forseti. Nú er hæstv. ráðherra genginn úr salnum. Ég vildi gjarnan að hann hlustaði á umræðu um sitt mál þó að það sé óþægilegt.

(Forseti (ÞBack): Forseti telur að hv. þingmaður hafi orðið þess var að hæstv. iðnaðarráðherra brá sér í næsta herbergi og er hér við hliðina.)

Allt í lagi, flott. Þakka þér fyrir. — Þar er komið máli mínu að upphæð fræðslugjaldsins, sem lagt var á með lögum í gær, er samningsatriði milli samtaka á vinnumarkaði. Fyrirtæki sem þarf að greiða gjaldið, af því að það er lagt á alla, er ekki endilega aðili að þessum samtökum, það kemur ekki nálægt ákvörðun um upphæð gjaldsins. Og þótt það kæmi nálægt ákvörðuninni er það meiri hlutinn sem ræður væntanlega í þeim samtökum þar sem ríkir ákveðið fulltrúalýðræði þannig að það eru SA og ASÍ, sem eru langt frá hinum venjulegu fyrirtækjum í landinu, sem ákveða hvað fyrirtæki eigi að greiða mikið. Þarna er verið að framselja skattlagningarvald, frú forseti, sem stjórnarskráin bannar því að í henni stendur að ekki megi leggja á skatt nema með lögum og hann þurfi að vera ákveðinn. Í gær voru samþykkt lög — óákveðinn skattur sem enginn veit hvað verður mikill og sem einhverjir aðrir aðilar ákveða en Alþingi. Það er ekki nóg með það heldur rennur þetta til fræðslusjóða á vegum einhverra samtaka sem viðkomandi fyrirtæki er ekki í og það er það sem brýtur væntanlega mannréttindaákvæði um félagafrelsi, sem einmitt Mannréttindadómstóllinn ákvað, og svo er ekkert sagt hvað þessir sjóðir eigi að gera. Þeir eru fræðslu-eitthvað nákvæmlega eins og vissir sjóðir heita sjúkra-eitthvað. Það eru engar reglur, engin lög og ekki neitt. Sumir sjóðir heita orlofs-eitthvað. Nafnið á að segja til um tilganginn. Það er ekkert eftirlit, engin lög um eftirlit eða endurskoðun eða stjórnir eða neitt í þessum þremur fyrirbærum sem ég nefndi, sem eru orlofssjóðir, sjúkrasjóðir og nú fræðslusjóðir. Inn í þessa sjóði streyma óhemjumiklir peningar. Inn í sjúkrasjóðina streymir 1% af launum allra landsmanna meira og minna. Það eru sennilega um 7 milljarðar á ári, það eru ekki litlir peningar. Inn í orlofssjóðina streymir sennilega annað eins og enginn veit hvernig þessu er ráðstafað. Reyndar hafa stéttarfélögin verið að auka upplýsingar um þessa sjóði sem betur fer en það er ekki samkvæmt lögum þannig að þetta gjald er „betra“, þ.e. það er minna brot á stjórnarskrá og mannréttindum en gjaldið sem við samþykktum sem lög í gær um fræðslusjóði.

En það eru fleiri gjöld sem hér hafa verið nefnd. Það eru gjöld eins og búnaðargjaldið, gjald sem rennur til LÍÚ sem bönkunum er gert að innheimta með lögum. Það eru bankastofnanir í landinu sem eiga að innheimta gjald til félaga á vegum útgerðarmanna, alveg ótrúleg ráðstöfun, og sjómanna líka. Síðan erum við með STEF-gjaldið. Einu sinni var það 1% af öllum tölvum sem seldar voru úr landinu sem rann til STEF. Nú er búið að breyta því, að mér skilst, ég er að reyna að komast að því, en það er alla vega gjald á hvern einasta disk og mér skilst á hvern einasta minniskubb líka sem rennur til STEF með þeirri röksemd að það gæti verið að menn geymdu tónlist á þessum diskum. Á mínum diskum eru aðallega geymdar ljósmyndir, frú forseti, og ég á höfundarréttinn að þeim en ég fæ ekkert af höfundarréttargjaldinu sem ég er látinn borga fyrir þessa diska þannig að þetta er dálítið undarlegt allt saman. Í tölvunni minni og á diskunum mínum eru aðallega geymd forrit, Excel og svona dót sem ég er höfundur að, því sem ég hannaði í Excel, en Microsoft á höfundarréttinn að forritunum. Þeir fá ekkert úr STEF-sjóðnum þó að höfundarréttur þeirra sé varinn. Þetta er því mjög skrýtin innheimta og rennur til einhverra samtaka sem eru á vegum einstaklinga.

Nú er tími minn að renna út þannig að ég þarf sennilega að ræða um þetta aftur. En það sem ég ætlaði að ræða sérstaklega núna er afleiðingin af þessum gjaldtökum öllum, þ.e. hvernig búið er að negla niður allt stéttarfélagakerfið og félagakerfið í landinu af svokölluðum aðilum vinnumarkaðarins, sem eru ASÍ og SA, BSRB o.s.frv. — fyrrverandi formaður BSRB til margra ára er þingmaður á Alþingi, hv. þm. Ögmundur Jónasson, og hefði átt að taka þátt í umræðunni núna vegna þess að samkvæmt lögum er skylda að greiða í stéttarfélag opinberra starfsmanna. Leikskólakennari skal greiða í ákveðið stéttarfélag hvort sem hann vill vera félagi eða ekki. Ef hann vill ekki vera í félaginu þá nýtur hann ekki allra réttindanna sem þar eru en hann skal greiða félagsgjald. Og það er merkilegt að það er ekki ákveðið í lögunum hvað félagsgjaldið á að vera hátt. Félagið sem hann er ekki aðili að getur því ákveðið að félagsgjaldið verði 100% af launum, það gæti gert það. Launaskrifstofa fjármálaráðuneytisins yrði þá að innheimta það daginn eftir, þannig er það, og þar er skattlagningarvaldið líka brotið.

En það sem verra er, þessi félög eru öll orðin opinber. Við vorum að ræða vinnustaðaskírteini um daginn þar sem fulltrúum einhverra félaga er með lögum gefin heimild til að fara inn á svæði fyrirtækja sem ekki eru í þessum samtökum, kíkja þar allt í kring og spyrja fólk sem þar er á vappi hvort það sé með vinnustaðaskírteini. Við erum búin að negla niður og gefa ákveðnum aðilum leyfi til að kalla á lögregluna ef þeim er ekki hleypt inn. Ég held að menn þurfi að staldra dálítið við. Segjum að starfsmanni á leikskóla, sem ekki eru allir með mjög há laun, ofbjóði hvað launin eru orðin lág og hve illa stéttarfélögin standa sig í kjarabaráttunni. Segjum að hann vilji, ásamt fleirum sem eru á sama báti, stofna stéttarfélag vegna þess að hann verður að berjast fyrir betri kjörum, eins og var í gamla daga, hann getur ekki lifað. Segjum að þessi staða komi upp.

Frú forseti. Hann má það ekki. Hann skal greiða í opinbera stéttarfélagið sem hefur samið illa um kjör hans. Hann getur ekki stofnað stéttarfélag því að hann þarf þá að greiða félagsgjald til beggja og stéttarfélagið sem hann stofnar er ekki samningsaðili.

Bíðum nú við. Hvert erum við komin? Hvernig byrjuðu stéttarfélögin? Þau byrjuðu sem mjög mikilvægt tæki fátæks fólks til að berjast fyrir bættum kjörum. Hvar eru þau að enda? Þau eru að enda sem handbendi ríkisins til að framkvæma eitt og annað í stórum stíl og koma að mikilvægustu ákvörðunum og gera samninga sem ríkisstjórnin stendur og fellur með. Ég held að stéttarfélögin og Samtök atvinnulífsins, ríkisvaldið og allir hv. þingmenn þurfi að hugsa sinn gang í þessu. Segjum að til yrðu ný samtök iðnaðarins og eins og gjaldið var þyrftum við að borga til samtaka iðnaðarins. Hver ætlar að semja við þau? Hvaða stöðu hafa þau í kerfinu? Segjum að mörg önnur samtök atvinnulífsins myndi ný samtök atvinnulífsins, gefum okkur það. Hvar eru þau í dæminu með vinnustaðaskírteini? Þau eru bara ekki til. Ég held að menn þurfi virkilega að fara að skoða árdaga stéttabaráttu á Íslandi, hvernig þetta allt varð til og í hvaða stöðu menn eru komnir með opinber stéttarfélög og opinber samtök atvinnulífsins eins og var reyndar í Sovétríkjunum.