138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[12:40]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ekki vil ég ganga eins langt og hv. þm. Pétur Blöndal og nefna Sovétríkin í sambandi við það kerfi sem við höfum hér á landi en það er hárrétt ábending hjá hv. þingmanni að þessi samtök, hvort sem er á launþegavængnum eða atvinnurekendavængnum, eru mörg hver orðin mjög stofnanavædd. Samkrull þeirra og ríkisvaldsins er víðtækt og í sumum tilvikum er um óeðlilega óljós verkaskipti að ræða. Ég tek undir sjónarmið hv. þingmanns í sambandi við þau dæmi sem hann nefnir.

Eins og hv. þingmaður hef ég lengi verið þeirrar skoðunar að gjaldtaka á borð við iðnaðarmálagjaldið stríddi gegn félagafrelsissjónarmiðum. Ég hef oftar en einu sinni verið meðflutningsmaður hv. þm. Péturs H. Blöndals að frumvörpum í þeim efnum. Kannski ekki alltaf, ég þori ekki að fullyrða það, en oftast nær hef ég fylgt honum að málum þannig að við deilum sjónarmiðum í þessu sambandi. Í því ljósi hlýt ég auðvitað að fagna frumvarpinu.

Frumvarpið felur í sér að iðnaðarmálagjaldið er afnumið. Í frumvarpinu felst ekki neitt annað fyrirkomulag sem kemur í staðinn. Raunar var boðað, eftir að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu féll, að brugðist yrði við þessu með einhverjum hætti. Annars vegar með því að fella gjaldið úr gildi og hins vegar, hygg ég, með því að koma á annars konar fyrirkomulagi til að styðja tiltekna starfsemi á sviði iðnaðar. Það verður auðvitað forvitnilegt að sjá hvernig tillögur í þá veru verða útfærðar.

Í þessu máli er rót vandans auðvitað sú að afli ríkisvaldsins og löggjafans hefur verið beitt til að knýja aðila til greiðslu til félagasamtaka, hvort sem þeir hafa áhuga á því að vera þar félagar eða ekki. Þetta er kjarni félagafrelsissjónarmiða. Það er óþarfi að rifja það upp að bæði íslenska stjórnarskráin og mannréttindasáttmáli Evrópu vernda rétt manna til að standa utan félaga nema í ákveðnum, mjög þröngum undantekningartilfellum. Sá réttur hlýtur óneitanlega að vera afar mikilvægur. Á sama hátt og það er gríðarlega mikilvægt að ríkisvaldið hindri menn ekki í að stofna félög og samtök í sérhverjum lögmætum tilgangi er jafnmikilvægt að þeir sem ekki vilja vera félagar séu ekki skyldaðir til þess. Stundum hefur verið farið fram hjá þessu með því að segja: „Það er enginn skyldaður til aðildar en það verða allir að borga.“ Auðvitað er iðnaðarmálagjaldið ákveðin leið til þess. Sama á við um aðild opinberra starfsmanna að stéttarfélögum opinberra starfsmanna. Í lögum er ekki skylda að menn séu aðilar að BSRB eða BHM eða öðrum slíkum félögum en það eru allir skyldugir að borga til þeirra. Og þá spyr maður: Hver er raunveruleikinn í þessu sambandi? Raunveruleikinn er sá að með skyldugreiðslu til tiltekinna félaga er auðvitað gengið gegn almennum félagafrelsissjónarmiðum.

Þetta þurfum við að hafa í huga þegar framtíðarfyrirkomulag verður mótað. Þetta segi ég vegna þess að margháttuð starfsemi sem fram fer á vettvangi iðnaðarins er gríðarlega mikilvæg. Andstaða mín við iðnaðarmálagjald byggir ekki á því að ég telji ekki að Samtök iðnaðarins séu góð samtök. Ég held að þau séu góð samtök og vinni á margan hátt mjög gott starf. Stundum er ég prívat og persónulega sammála þeim og stundum er ég hjartanlega ósammála þeim en ég tel að þau vinni í meginatriðum gott starf. Á vegum þeirra er unnið mikilvægt fræðslustarf og stuðningsstarf við fyrirtæki sem ég held að skili mjög miklum árangri. Ég tel hins vegar að það sé ekki eðlilegt hvernig staðið hefur verið að gjaldtökunni sem nota bene er mjög veigamikill hluti af fjármögnun samtakanna. Það kemur fram í fylgiskjali með frumvarpinu að á árinu 2009 skilaði iðnaðarmálagjald 443 millj. kr. til Samtaka iðnaðarins meðan eiginleg félagsgjöld skiluðu næstum því þrefalt lægri upphæð. Í fljótu bragði sýnist mér reikningsdæmið líta þannig út að næstum því þrír fjórðu af rekstrartekjum Samtaka iðnaðarins komi frá þessu gjaldi. Það er auðvitað enginn smápartur af starfsemi þeirra.

Auðvitað má segja að mörg af þeim jákvæðu verkefnum, menntastarfi, kynningarstarfi og öðru þess háttar sem fram fer á vegum Samtaka iðnaðarins gætu verið vistuð annars staðar eða fjármögnuð með öðrum hætti. En ég legg áherslu á það, hæstv. forseti, að þegar framtíðarstefna verður mótuð í þessum efnum verði sömu sjónarmið höfð uppi og dómurinn byggir á, varðandi félagafrelsi og rétt manna til að standa utan við félagasamtök.

Í umræðunni hefur örlítið verið vikið að því á hvaða forsendum dómur Mannréttindadómstóls Evrópu var kveðinn upp. 11. gr. mannréttindasáttmálans er kjarni málsins en þar er félagafrelsisákvæði sáttmálans. Dómstóllinn lagðist í túlkun á því í samræmi við það sem fram kom í gögnum málsins um íslenska löggjöf og framkvæmd hvað varðaði Samtök iðnaðarins.

Eins og kemur fram í athugasemdum við lagafrumvarpið voru fleiri atriði undir í kærunni til Mannréttindadómstólsins en dómstóllinn taldi ekki tilefni til að skoða þau heldur leysti aðeins úr málinu á grundvelli 11. gr., þ.e. félagafrelsisákvæðisins.

Í fyrsta lagi taldi dómstóllinn að félagafrelsisákvæðið ætti við, sem er út af fyrir sig athyglisvert því að stundum hefur því verið haldið fram að svona skyldugreiðslur til samtaka kæmu félagafrelsissjónarmiðum ekkert við, af því að þetta væru bara skyldugreiðslur, ekki skylduaðild.

Í öðru lagi skoðaði dómstóllinn hvort fyrirkomulagið bryti gegn ákvæðum um sannfæringu og skoðanafrelsi. Þá taldi dómstóllinn að ástæða væri til að hafa hliðsjón af því að þarna væri um að ræða samtök sem hefðu sjónarmið um ýmis mál sem telja mætti pólitísk. Þetta hafði áhrif á túlkunina varðandi 11. gr. Þegar dómstóllinn hafði komist að þeirri niðurstöðu að 11. gr. ætti við, félagafrelsisákvæðið, skoðaði hann hvort við ættu þau undantekningartilvik, sem felast vissulega í 11. gr., um að heimilt sé að skylda til félagsaðildar undir ákveðnum tiltölulega mjög þröngum skilmálum. Þeir skilmálar eru að takmörkun á félagafrelsi, takmörkun á rétti manna til að standa utan félaga, megi réttlæta ef slík takmörkun hefur í fyrsta lagi lagaheimild, í annan stað að hún stefni að réttmætu markmiði og í þriðja lagi að hún teljist nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi. Þetta eru sem sagt þrjú meginskilyrði.

Við athugun á málinu kom fram að óumdeilt var að gjaldtakan átti stoð í lögum þannig að lögmætisskilyrðinu var fullnægt. Í annan stað féllst dómstóllinn á það með lögmönnum íslenska ríkisins að þessi takmörkun á félagafrelsi stefndi að réttmætu markmiði, þ.e. því markmiði að vinna að eflingu iðnaðar og iðnþróunar í landinu. Þar reyndar verð ég að geta þess að persónulega er ég ekki sannfærður um réttmæti þeirrar niðurstöðu. Niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu stendur að þessu leyti þó að ég kunni að hafa önnur sjónarmið í því. Ég held að væg sönnunarkrafa sé þarna lögð á ríkið varðandi réttmætt markmið. Það er auðvelt að setja fram svona almenn jákvæð markmið sem hljóma vel en ég tel að það þurfi að skoða nánar hvað felst í þessu áður en menn fara að beita því sem röksemd til að réttlæta skerðingu á félagafrelsi. Mér finnst að það þurfi að gera dálítið stífar sönnunarkröfur í þeim efnum og það nægi ekki að vísa með almennum orðum til þess að í lögunum segi að það eigi að efla iðnþróun og iðnað í landinu. En nóg um það. Dómstóllinn komst að sinni niðurstöðu og taldi að með þessu atriði, ásamt lögmætiskröfunni, væri krafan um réttmætt markmið uppfyllt.

Þá er það þriðja atriðið sem er mjög matskennt, þ.e. hvort takmörkunin á félagafrelsi í þessu tilviki sé nauðsynleg í lýðræðisþjóðfélagi með tilliti til almannahagsmuna og réttinda annarra. Þetta er mjög matskennt en með sama hætti og fyrra skilyrðið um réttmæti markmiðanna er eðlilegt að það sé sýnt fram á að takmörkun á félagafrelsi sé nauðsynleg. Það er ekki nóg að hún sé bara æskileg eða jákvæð eða að flestra mati góð. Það verður að sýna fram á að hún sé nauðsynleg. Það er mjög mikilvægt af því að félagafrelsið er verndað af stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum. Þess vegna er ekki nóg að sýna að takmörkun á félagafrelsi manna sé jákvæð, góð eða æskileg. Það þarf að sýna fram á að hún sé nauðsynleg. Þar tókst íslenska ríkinu ekki að sýna fram á að skilyrðið væri uppfyllt. Á þeirri forsendu komst Mannréttindadómstóllinn að þeirri niðurstöðu að íslenska löggjöfin og fyrirkomulagið stæðist ekki 11. gr. Í því var kjarni málsins. Niðurstaðan er því byggð á félagafrelsissjónarmiðum. Talið var að iðnaðarmálagjaldið gengi gegn félagafrelsi og það varð niðurstaðan. Þessi sjónarmið sem komu fram við meðferð málsins hjá Mannréttindadómstóli Evrópu hljóta að gilda líka þegar við skoðum löggjöf á öðrum sviðum og innheimtu annarra gjalda sem telja má hliðstæð þó að þau séu kannski ekki útfærð með nákvæmlega sama hætti.