138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[12:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var mjög áhugaverð lögfræðileg greining á dómnum enda geri ég ráð fyrir að dómurinn verði mjög áhugaverður fyrir lögfræðinga þar sem hann fjallar um mannréttindi. Mjög margir lögfræðingar, t.d. hv. þm. Atli Gíslason, hafa mjög mikinn áhuga á mannréttindum þótt hann sé ekki viðstaddur í dag og ég sakna þess verulega, frú forseti.

Ég vildi spyrja hv. þingmann, sem er löglærður og búinn að stúdera dóminn, um ákvæði í starfsmannalögum ríkisins, 2. mgr. 7. gr. þar sem skylda á alla opinbera starfsmenn til að greiða í stéttarfélag án þess að gjaldið sjálft sé ákveðið, án þess að tilgangurinn sé ákveðinn og án þess að ríkið móttaki skattinn. Hvernig telur hann að ákvæðið yrði meðhöndlað hjá Mannréttindadómstólnum? Eins hvað varðar það gjald sem við samþykktum sem lög í gær um fræðslusjóði þar sem eiginlega ekkert var ákveðið annað en að gjaldið skyldi greiða. Upphæðin var ekki ákveðin, tilgangurinn var ekki ákveðinn. Það liggur að minnsta kosti fyrir varðandi gjaldið til stéttarfélaganna að stéttarfélögin eiga væntanlega að berjast fyrir kjörum fólks. En í lögunum er ekki talað um tilgang fræðslusjóðanna og eftirlit er ekkert. Hver telur hann að niðurstaðan yrði með þessi tvö gjöld ef þeim væri vísað með sama hætti til Mannréttindadómstóls Evrópu?