138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[14:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Innan Evrópusambandsins fara líklega mestu fjármunirnir í fáa þætti eins og einhvers konar styrki, byggðastyrki, niðurgreiðslustyrki og hvað þetta heitir nú allt saman, sem hafa flestir það markmið að lækka eða hafa vöruverð skikkanlegt, t.d. á landbúnaðarvörum. Munurinn er hins vegar sá að styrkir Evrópusambandsins fara að miklum hluta til risastórra fyrirtækja, fyrirtækja sem t.d. eru mjög stór í matvælaframleiðslu. Nægir þar að nefna kjúkling. Ef við förum í matvöruverslanir og kíkjum ofan í frystiborðið sjáum við þar frosnar vörur sem eru framleiddar í Evrópu, t.d. kjúklingabringur sem eru þá framleiddar og niðurgreiddar af Evrópusambandinu. Við á Íslandi höfum hins vegar kosið að láta neytendur — ég sé þetta þannig fyrir mér að þær niðurgreiðslur sem eru notaðar á Íslandi eru í rauninni í þágu neytenda. Þær eru til þess fallnar að lækka matvælaverð. Það er sama hugsun, nema hvað að hér á landi reynum við að láta þessa styrki ganga að miklu leyti til framleiðslunnar með framleiðslustyrkjum en innan Evrópusambandsins er verið að styrkja með öðrum hætti. Hugsunin er kannski sú sama.

Frú forseti. Iðnaðarmálagjald og önnur gjaldtaka hlýtur alltaf að vera til skoðunar en það að taka þetta núna inn í fjárlög og nota til að stoppa upp í hallagat ríkissjóðs í staðinn fyrir að afnema þetta bara strax er nokkuð sem ég velti fyrir mér.