138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[16:12]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal kom með áhugaverðan vinkil í andsvari sínu. Ég hygg að mönnum sé heimilt að taka sig saman og stofna með sér félagsskap eins og stéttarfélag sem þyrfti þá væntanlega að uppfylla þau skilyrði sem um það gilda samkvæmt t.d. lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. En það er bara önnur hlið á sama peningnum vegna þess að eins og hv. þingmaður nefndi verður eftir sem áður erfitt fyrir þessa félagsmenn, hafi þeir stofnað með sér nýtt stéttarfélag, að komast undan því að þurfa að greiða til gamla stéttarfélagsins að óbreyttum lögum, hygg ég. Ég segi þetta með þeim fyrirvara að ég hef ekki (Forseti hringir.) skoðað þetta atriði sérstaklega en ég sé það bara á hátterni hæstv. utanríkisráðherra að hann fagnar sérstaklega orðum mínum um þessi mál. (Utanrrh.: Margt vitlausara.)

Hæstv. utanríkisráðherra hlýtur að blanda sér í umræðuna um framtíðina hvað varðar skylduaðild manna að stéttarfélögum og framtíð þeirra gjalda sem hv. þm. Pétur H. Blöndal ræddi hér um. Telur hæstv. utanríkisráðherra að það standi til þess rök, samkvæmt 11. gr. mannréttindasáttmálans og þeim dómi sem íslenska ríkið var að að fá í höfuðið og varðar félagafrelsi, að innheimta fiskiræktargjald, að innheimta búnaðargjald, að innheimta stefgjöld og fleiri þau gjöld sem hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi? Ég hygg að í þessum dómi Mannréttindadómstólsins hljóti að felast sjónarmið sem setji allt þetta regluverk í algjört uppnám. (Forseti hringir.)