138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[16:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú skulum við fara með þessa hugsun dálítið lengra. Nú skulum við gefa okkur að í einum leikskóla hafi langþreyttir og sárþjáðir láglaunahópar sameinast í stéttarfélag. Og svo skulum við segja að það sama gerist í einhverjum grunnskólanum og einhverjum framhaldsskólanum, að þar séu líka stofnuð stéttarfélög. Nú skulum við gefa okkur að það gerist víðar hjá hinu opinbera að menn stofni stéttarfélög þó að þeim sé samtímis gert að greiða í önnur stéttarfélög, sem getur orðið enn þungbærara fyrir fólk sem er með lág laun.

Þá kemur spurningin: Hvað þýðir það ákvæði í lögum um lífeyrissjóði að öllum launþegum sé rétt og skylt að borga í lífeyrissjóð viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps? Hver er þá viðkomandi starfsstétt þess fólks sem er ekki í opinberu sjóðunum, er ekki aðili að Kennarasambandinu eða SFR eða öðrum stéttarfélögum sem eru í BSRB? Í hvaða lífeyrissjóði ætti það að borga? Segjum að þessi nýju samtök sem heita ASÍ 2 mundu stofna nýjan lífeyrissjóð eða BSRB 2 mundi stofna nýjan lífeyrissjóð sem yrði lífeyrissjóður opinberra frjálsra starfsmanna eða frjálsra opinberra starfsmanna, FOS. Mættu þeir þá borga í þann lífeyrissjóð eða ættu þeir að borga í hinn lífeyrissjóðinn?

Það sem ég er að leggja áherslu á er að opinbera kerfið er allt orðið niðurnjörvað og minnir skuggalega mikið á Sovétríkin.