138. löggjafarþing — 138. fundur,  12. júní 2010.

iðnaðarmálagjald.

661. mál
[16:16]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég segi það aftur eins og ég sagði áðan að ég held að hv. þm. Pétur H. Blöndal velti hér upp og varpi fram álitaefnum sem eru mjög athyglisverð í tengslum við það mál sem við erum að ræða hér og þær forsendur sem fram koma í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu og í sératkvæði eins dómarans við Hæstarétt Íslands um félagafrelsi. Þetta snýr auðvitað að þeim þáttum sem hv. þingmaður nefnir, möguleikum hópa til að stofna með sér ný stéttarfélög sem hafi sömu stöðu og þau sem fyrir eru. Ég hygg að það verði býsna erfitt vegna skylduaðildarinnar sem viðgengst á Íslandi. Þarna spila inn í málefni tengd lífeyrissjóðunum og ýmis önnur atriði sem erfitt er að svara í einu andsvari en eru auðvitað mál sem menn hljóta að taka hér til efnislegrar umræðu.

Ég fagna því að genginn sé í salinn hv. þm. Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður iðnaðarnefndar, sem mun fá þetta mál til efnislegrar meðferðar í sinni nefnd. Ég geri ráð fyrir því að hann muni halda hér vandaða og ítarlega ræðu um akkúrat þau mál sem við höfum verið að ræða. Þetta frumvarp og sá dómur sem féll hjá Mannréttindadómstóli Evrópu hefur auðvitað mjög víða skírskotun sem þingmenn stjórnarliðsins hljóta að hafa einhverja skoðun á. Því miður er það rétt sem hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði í sínu fyrra andsvari, það er ákveðinn ljóður á ráði stjórnarliða að loksins þegar við förum að ræða hér af einhverri alvöru um grundvallarmannréttindi eru (Forseti hringir.) ákaflega fáir úr stjórnarliðinu sem taka þátt í þeirri umræðu. (Forseti hringir.) Þó vil ég ekki vera að skamma einmitt þá sem það gera.